14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Framsm. fjárveitinganefndar (Bjarni Jónsson):

Það er að eins stutt athugasemd, til þess að bæta inn tveim atriðum, sem jeg gleymdi úr fyrri ræðu minni.

Í fyrsta lagi um orðabókina. Jeg gleymdi að geta þess, að henni fylgir ein smátill, um að fella niður smáfjárveiting, sem Ed. hafði samþ. Hún stendur í því sambandi við aðaltill., að ef hún verður feld, þá verður þessi tekin aftur. En ef aðaltill., hækkun styrksins til orðabókarinnar, verður samþ., þá ætlast nefndin til, að þessi smáfjárveiting felist í hækkuninni, og að sá maður, sem hennar skyldi njóta, verði þá undir umsjón aðalritstjóra orðabókarinnar.

Í annan stað þarf jeg að færa háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) þakkarávarp fyrir það, að hann lætur í veðri vaka, að hann muni taka aftur till. sína um skálda- og listamannastyrkinn. En þessi upphæð er reiknuð með námsstyrk til Sigurðar Þórðarsonar frá Söndum, sem nú er í Leipzig. Að þessum styrk meðtöldum, 2000 kr., verður upphæðin 14 þús. kr. fyrra árið, eða með öðrum orðum jafnmikið og veitt er síðara árið. Jeg vildi að eins geta þessa mönnum til skýringar, svo að þeir skilji, hvernig á þessu stendur. Jeg vil líka benda á það, að jeg get ekki sjeð, að þessi 14 þús. sje ofmikið til að bæta upp þeim mönnum, er lengi hafa staðið í fjárlögunum. Jeg vil minna menn á, að á þingi í vetur var þessum mönnum neitað um dýrtíðaruppbót, sem þó aðrir fengu. Aftur á móti var þá talað um, að þetta mundi verða bætt með ríflegu fjárframlagi sem hallærisstyrk nú á þingi, til skálda og listamanna. Og jeg sje ekki, að þetta geri meira en að samsvara þeirri uppbót, sem aðrir hafa fengið. Sumir þessara manna hafa staðið alllengi í fjárlögunum, og það hefir verið ætlast til þess, að þeir fengju einhverja hækkun. Jeg vil endurtaka það, sem jeg hefi sagt áður, fyrir hönd nefndarinnar, að henni mundi þykja það ilt, ef farið væri að gera upp á milli þeirra, er áður hafa verið jafnir í fjárlögunum, eða að taka einn fram yfir annan. Þetta var sú athugasemd, sem jeg þurfti að gera, af því að jeg gleymdi því í fyrri ræðu minni. Að öðru leyti get jeg ekki sagt annað en að menn hafa verið mjer góðir, og er því fátt eða ekkert sem jeg þarf að svara. Það var helst háttv. 2. þm. Rang. (E. J.), sem virtist vilja vefengja sumt af því, sem jeg sagði. Jeg ætla að minnast lauslega á það fyrsta, sem hann sagði, um veitinguna til hafnarsjóðs í Vestmannaeyjum. Hann var á þeirri skoðun, að það færi meira af þeim peningum í sjóinn, sem til hafnargerðarinnar þar væri veitt, heldur en það, sem að gagni kæmi. Jeg vil benda háttv. þm. (E. J.) á, að það eru peningar Monbergs, sem hefir verkið með höndum, sem þar færu í sjóinn, en ekki landssjóðs, svo að það ætti ekki að geta haft nein áhrif á atkv. manna um þetta. Nú heyri jeg, að háttv. sami þm. (E. J.) hefir tekið till. sína aftur, og er það auðvitað gott. Jeg skal svo ekki fjölyrða meir, því að jeg vildi að eins taka fram það, sem jeg hafði gleymt.