10.09.1917
Efri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Kristinn Daníelsson:

Mál þetta mun engan sjerstakan. flm. eiga hjer í

þessari háttv. deild, og stend jeg því upp í því skyni að innleiða það með fám orðum.

Eins og kunnugt er hafa tveir andstæðir flokkar staðið að þessu máli. Hafa þeir brugðið hvor öðrum um ákafa og ofstæki. Jeg ætla nú samt ekki að gera mig sekan í slíku með þessum fáu orðum.

Hvortveggja flokkurinn hefir þó verið sammála um takmarkið, það að útrýma böli ofdrykkjunnar í landinu. Það eru að eins leiðirnar að þessu takmarki, sem flokkarnir hafa skiftst um. Annar flokkurinn hefir valið þessa ákveðnu, og sem ætti að vera áhrifamiklu, leið, bannlögin, og síðan þau komu fram hefir deilan staðið um þau.

Saga laganna er svo kunn, að ekki þarf að fara út í hana hjer. Lögin voru gerð að fengnu þjóðaratkvæði, og síðan hefir ekkert það komið fram, er bent geti til þess, að þjóðinni hafi snúist hugur. Aftur á móti hafa borist kröfur frá þingmálafundum úti um land, ýmist um umbætur á lögunum eða betra eftirlit. Af þeim sökum eru þau nú hjer komin aftur.

En eins og kunnugt er hafa þau mætt andspyrnu og átt allþungan róður gegnum þingið.

Andstæðingarnir hafa að vísu ekki gert beinar tilraunir til þess að afnema þau með öllu, en þeir hafa viljað reyna að breyta þeim í annað form, þannig, að lítill sem enginn veigur yrði í ákvæðum þeirra. Líka hafa þeir staðið á móti breytingum þeim, er fram hafa komið í þá átt að efla lögin og styrkja.

En undarlegra er það, að sumir, sem voru vinir laganna í fyrstu, standa nú á móti öllum breytingum. Ástæðan hjá mótstöðumönnunum er sennilega sú, að þeir hyggja, að lögunum muni verða lengra lífs auðið, ef breytingarnar næðu fram að ganga. En ástæða þeirra meðhaldsmanna, sem enga breytingu vilja, hlýtur að vera sú, að þeir telji lögin fullgóð eins og þau eru, ef þeim væri framfylgt.

Mótstöðumönnunum hefir hætt við að halda því fram, að við, fylgjendur málsins, ruglum saman leiðinni, sem farin er, og takmarkinu. Því hefir verið haldið fram, að við höfum gert lögin að takmarkinu, en auðvitað eru þau að eins leiðin, sem fara skal. En þó að svo sje, getur hitt þó til sanns vegar færst, að þau verði um leið sjálf takmark.

Takmarkið, sem stefnt er að með því að smíða skip, er, að það verði sjófært og hæft til þess, sem á að nota það til. En fyrir smiðinn verður skipið takmark, að gera það sem best úr garði. Líkt er ástatt hjer. Takmarkið, sem lagasmíðin stefnir að, er það að útrýma áfengisbölinu, en þá verður það um leið takmark fyrir þá, sem að lögunum vinna, að gera þau sem best úr garði, til að ná þessum tilgangi.

En þar sem lög þessi eru frumsmíði, þá er ekki að furða, þótt brestir sjeu á, sem laga þarf. Kröfur um það hafa borist víðs vegar að, og þess vegna er frv. þetta fram komið.

Málið hefir fengið allrækilega meðferð í háttv. Nd. Var fyrst borið fram frv. um að breyta lögunum, en það frv. náði ekki fram að ganga. Varð niðurstaðan sú að steypa saman lögunum sjálfum og breytingunum.

Það á ekki við nú að fara út í einstök atriði. Að eins vil jeg benda á, að aðalbreytingarnar, frá því sem verið hefir, eru þær að hækka sektir nokkuð og auka eftirlitið. Geri jeg ráð fyrir, að háttv. þingdm. hafi kynt sjer breytingarnar, því að þær eru allar prentaðar með breyttu letri í frv.

Með breytingum þessum er skemra farið en gert var í upphaflega frv., og munu andstæðingarnir því sætta sig betur við þetta frv. Vera má, að meðhaldsmönnum þyki fullskamt farið, en þetta er þó spor í áttina.

Það kjósa víst allir, sem frv. eru hlyntir, að það fái að ganga fram óbreytt, og vegna þess, að tími er naumur, vildi jeg leggja til, að það verði látið ganga fram nefndarlaust.

Eins og hæstv. forseti tók fram ætti málið að fara til allsherjarnefndar, ef því væri vísað til nefndar, en við, sem í henni sitjum, höfum skilið hver annan svo, að við munum ekki geta fylgst að um frv. þetta.

Annar meðnefndarmaður minn hefir gefið samþykki sitt til þess, að það gangi fram nefndarlaust, og legg jeg því til, að svo verði.

Þá vil jeg benda á, að í 14. gr. frv. er prentvilla, sem haldist hefir gegnum allar prentanir þess. Þar stendur orðið »aflað«, í staðinn fyrir ætlað. Vona jeg, að þetta verði athugað og lagfært sem prentvilla.