08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

23. mál, Tunga í Skutulsfirði

Matthías Ólafsson:

Mjer þykir leitt, að nál. um þetta mál skuli ekki vera lengra nje greinilegra. Jeg vildi, að nefndin hefði gert grein fyrir, hvers vegna hún teldi nauðsynlegt að selja landssjóðseign, því að það ætti að vera reglan, að landssjóðseignir væru ekki seldar nema nauðsyn bæri til. Þetta nál. gerir enga grein fyrir því, enda er það ekki nema 3 línur á lengd.

Jeg þekki vel til þarna fyrir vestan, því að jeg hefi verið þar kunnugur frá því að jeg var drengur, og jeg veit, hvers virði þessi jörð er og getur orðið. Það nær engri átt að selja fyrir einar 600 kr. hndr. í jörð, sem liggur 4 km. frá Ísafirði, fast við akbrautina niður í kaupstaðinn. Hvort sem þetta verður ákveðið hjer í deildinni eða ekki, þá greiði jeg því aldrei atkvæði mitt.