08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

23. mál, Tunga í Skutulsfirði

Matthías Ólafsson:

Jeg skal strax svara háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.). Hann hefir enga ástæðu til að bregða mjer um neina hlutdrægni í þessu máli. Hann veit það vel, að jeg er á móti allri þjóðjarðasölu, en sjerstaklega er jeg á móti því að selja nú Ísafirði þessa eign, af því að jeg veit, að hann hefir ekkert með hana að gera. Hann á nóg land fyrir. Jeg veit það, að Ísafjörður er í því falli miklu betur settur en t. d. Reykjavík, að tiltölu við mannfjölda. Jeg sje ekki, að kaupstaðurinn hafi nokkuð að gera með jörð, sem liggur 6 km. í burtu.