14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Hákon Kristófersson:

Jeg á hjer brtt. á þgskj. 952, sem jeg vildi fara nokkrum orðum um. Hún fer fram á, að stjórninni veitist heimild til að veita Guðmundi Elendínusi Guðmundssyni eftirgjöf á láni því, 12000 kr., er Alþingi 1915 heimilaði að veita honum til að starfrækja kolanámu í Sjöundárlandi í Barðastrandarsýslu. Þegar þetta lítilfjörlega lán var veitt, þá var í upphafi beðið um meira, en því synjað.

Jeg hygg, að mjer sje óhætt að fullyrða, að þegar þetta gekk í gegnum Alþingi, þá var það miklu fremur talið sem styrkur heldur en lán. Þennan mann, sem hjer ræðir um, má telja verulegan brautryðjanda í kolarannsókn hjer á landi. Og með tilliti til þess finst mjer ekki óviðeigandi, að honum sje nú gefið eftir þetta lán, sem, eins og jeg áðan tók fram, mun í upphafi hafa verið skoðað frekar sem styrkur. Það mælir enn fremur mikið með þessari eftirgjöf á láninu, að svo framarlega sem hún nær fram að ganga, þá ætlar þessi maður sjer að verja fjenu til þess að afla sjer nýrra borunartækja, svo að hann geti haldið áfram kolarannsóknum og borað fyrir kolum víðs vegar úti um land. Eins og mönnum mun vera kunnugt þá varð hann að láta af hendi námurjettindin í Stálfjalli við annað fjelag, af því að hann hafði ekki nægilegt fjármagn til að reka námuna upp á eigin spítur. Jeg býst nú ekki við, að háttv. deild taki sjerlega mjúkum höndum á þessari till. minni, en jeg er nú orðinn mörgu vanur, svo að jeg kippi mjer ekki svo mikið upp við það. Mjer er það nóg, að jeg þykist hafa gert mitt til, að háttv. deild fengi tækifæri til þess að sýna sanngirni.

Sjerstaklega hefir háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) farið allhörðum orðum um þessa till mína. Hann sagði eitthvað á þá leið, að framkoma þessarar till. væri megnasta bíræfni.

Þessi orð vinar míns (S. S.) get jeg varla talið frambærileg frá hans hálfu, því að jeg hygg, að flestir munu mjer sammála um, að sumar af brtt., er hann hefir borið hjer fram, sjeu engu síður bíræfni, nema fremur væri. Hann sagði meðal annars, að hann mundi varla heyra þau rök í þessu máli, sem mundu sannfæra hann. Þetta má nú skoða frá tveim hliðum, bæði að jeg hefði ekki slík rök fram að bera og að hann gæti alls ekki sannfærst, hvað sterk rök sem væru fyrir hendi.

Guðmundur Elendínus er áreiðanlega alls góðs maklegur fyrir sína rannsókn í þarfir landsins. Þetta fjelag, sem hann hefir nú fengið í hendur námuna, hefir að vísu útvegað honum atvinnu þar, en þó getur það sagt honum henni upp á að eins þriggja mánaða fresti. — Jeg skal játa það með háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), að það er í alla staði lofsvert að spara við hóf. En jeg get ekki sjeð, að það sje lofsverður sparnaður yfirleitt að láta ekki fje af mörkum til þeirra fáu manna, sem hafa rutt nýjar brautir á einhverjum sviðum. Jeg verð að segja, að jeg tel þá meiri sparnaðarmenn í raun og veru, sem sjá ekki í hvern eyri til styrktar slíkum mönnum, sem vinna að einhverjum þörfum fyrirtækjum, heldur en hina, sem leggja sig þvert í götu þess. Að þessi maður hafi unnið þarft verk, um það verður ekki deilt. Og með tilliti til ýmsra annara styrkveitinga hjer, þá get jeg ekki annað sjeð en að þessi till. mín eigi alveg jafnmikla sanngirniskröfu til að vera tekin til greina eins og sumar af hinum.

Jeg sje að vísu, að það hefir enga þýðingu að fara að lýsa starfsemi þessa manns út í ystu æsar, enda brestur mig ýms gögn til þess, og verð jeg því að fela háttv. deild úrlausn þessa máls og mun það þá koma fram við atkvgr., hvernig hún lítur á málið.

Um. brtt. nefndarinnar og einstakra manna virðist ekki ástæða til að fara mörgum orðum, enda mun jeg sýna með atkvæði mínu, hvernig jeg lít á þær. Þó get jeg ekki stilt mig um að minnast á eina af mörgum, sem sje þá, er hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) bar fram um skrifstofukostnað sýslumanna. Það er fjarri mjer að bera neinar brigður á, að þessir rjettlætisþjónar eru alls góðs maklegir, og þröngt getur verið í búi hjá þeim sem öðrum á þessum tímum, en þar sem hæstv. stjórn hefir sjeð það framboðlegt að veita þessum mönnum launaviðbót, hefði ekki verið ómaklegt að líta einnig á kjör annarar stjettar, sem á við þröng launakjör að búa, og það miklu þrengri en sýslumenn, og á jeg þar við læknana. Þeir hafa minni laun, en jeg veit, að hægt er að svara mjer með því, að þeir hafi meiri aukatekjur. Það er að vísu rjett, en það er grundvallað á því, hve margir sjúklingar eru. Það getur hver maður sjeð, hversu óviðeigandi er, að starfsmenn þess opinbera eigi lífsframfærslu sína undir sjúkdómum annara, og hefði mjer því ekki fundist óeðlilegt, að hæstv. stjórn hefði viljað bæta kjör þessara starfsmanna landsins. Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) gat þess, að það væri ekki nema sanngjarnt, að Alþingi yrði við þessari ósk, því að altaf væri verið að hrúga ýmsum nýjum störfum á þessa menn, en til þess er því að svara, að jeg veit ekki betur en að um leið og störfum hefir verið bætt á þá hafa þeir fengið nýjar tekjur, t. d. um leið og bætt hefir verið á þá innheimtu hafa þeir fengið innheimtulaun. Mjer finst það því ekki frambærilegt af stjórninni að segja, að þeim hafi verið íþyngt með nýjum störfum. Jeg segi þetta ekki vegna þess, að jeg telji það ómaklegt að veita þessum mönnum skrifstofufje, þvert á móti, jeg tel rjettlátt, að þeim sje veitt það, en þótt það sje rjettlátt í sjálfu sjer, er það þó ekki rjettlátt gagnvart öðrum embættismönnum. En sje þessi leið valin, þá finst mjer tæplega rjett að fylgja ekki alveg tillögum háttv. Ed., heldur klípa af þessum styrk, því að jeg tel hann ekki ofríflegan eftir tillögum hæstv. stjórnar, þótt talsvert megi að því finna, hvernig honum er þar jafnað niður. Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) studdi mál sitt með ýmsum röksemdum, og án þess, að jeg vilji gera lítið úr þeim, verð jeg þó að segja það, að skýrslur sumra manna eru ósannar. Það er ekki frambærilegt að taka ekki tillit til, um leið og skýrslan um skrifstofukostnað er gefin, hvort sýslumennirnir hafa póstafgreiðslu eða ekki. Mjer er kunnugt um 1—2 tilfelli, þar sem þessi rök eru ekki tekin til greina. (P. J.: Það er talið fram). En mjer er kunnugt um, að það framtal getur verið á miður sönnum rökum bygt. Meðal annars skal jeg geta þess, í sambandi við þetta mál, að jeg býst við, að það verði samþykt hjer í dag, að þeir, sem skrifstofuhald þurfa að hafa í þarfir þess opinbera, fái kol undir verði, en þá er jeg mjög óánægður yfir því, að læknarnir eru þar undan skildir, en sýslumenn teknir inn í fjárlög með sjerstaka fjárveitingu. Jeg skil alls ekkert í því, að læknastjettin, sem er engu ónauðsynlegri en sýslumannastjettin, skuli vera höfð þannig út undan.