14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Framsm. fjárveitinganefndar (Magnús Pjetursson):

Jeg veit ekki, hvort allir þeir eru inni, sem jeg þarf að víkja orðum að, en það verður að hafa það. Jeg skal reyna að fara fljótt yfir sögu, og skal jeg þá fyrst víkja að því, sem hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) sagði um brtt. nefndarinnar við skrifstofukostnað sýslumanna. Jeg skal þá undirstrika það, sem jeg sagði í framsöguræðu minni, að nefndin getur einungis litið á fjárveitinguna sem dýrtíðaruppbót á skrifstofukostnaði, og álítur því, að það hafi verið misskilningur hjá hæstv. ráðherra (S. E.) og háttv. 1, þm. Árn. (S. S) að tala um þetta sem launaviðbót, en ef þetta er launaviðbót, þá er nefndin algerlega á móti því, og það er einungis með þessari skýringu, að nefndin getur gengið inn á, að þetta fje sje veitt. Jeg ætla ekki að fara mikið út í það, sem hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) sagði um launakjör þessara embættismanna, en jeg verð þó að mótmæla því algerlega, að þessi stjett eigi við verri launakjör að búa en aðrir embættismenn í þessu landi. Mjer þótti leitt, að hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) gat ekki gefið skýrslu um, hve miklar tekjur sýslumenn hefðu af landssjóðsversluninni, því að það gaf nefndinni tilefni til að lækka upphæðina. Jeg býst við, að hæstv. atvinnumálaráðherra geti gefið manni upplýsingar um þetta. (S. J.: Það er ekki búið að gera það upp alstaðar). Það getur verið, að það sje ekki búið alstaðar, en jeg býst við, að það sje talsverð borgun. Annars mætti gefa deildinni upplýsingar um, hvaða reglu er fylgt við þessa borgun. Annars skal jeg ekki fara frekar út í það, en geri ráð fyrir, að sanngjarnt sje að veita þeim þetta fyrir auknar skýrslugerðir, sem hæstv. atvinnumálaráðherra gat um að þeir fengu enga sjerstaka borgun fyrir

Það var víst háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.), sem vildi mótmæla till. nefndarinnar um styrkinn til Kjósarhrepps og kvað hann muna litlu, og er það alveg rjett, að þetta er ekki há upphæð í fjárlögum, en það var ekki heldur það, sem nefndinni gekk til að vera á móti honum, heldur hitt, að það var von á beiðni frá að minsta kosti 4 öðrum hreppum um samskonar styrk, ef þessi yrði samþyktur. Sá erfiðleiki, að ilt er að flytja lækninn, er nú upphafinn, því að nú er kominn annar læknir í Hafnarfjörð.

Háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) skýrði frá brtt. sinni á þgskj. 916, en jeg skal geta þess, að svo framarlega sem till. hans verður samþykt, verður að skoða upphæðina sem persónulega launaviðbót til þessa póstafgreiðslumanns, því að það eru í þessum launaflokki 6 menn. Jeg vil leyfa mjer að benda á, að þar sem þessi maður hefir haft 800 kr. að undanförnu, fær hann nú 1000 kr., og enn fremur er ætlast til, að húsaleiga hjá honum hækki um 100 kr., auk þess sem skrifstofukostnaður póstmanna utan Reykjavíkur gengur líka að einhverju leyti til þessa manns. Jeg get verið samdóma háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) um það, að borgunin er ekki samsvarandi starfinu, en jeg veit ekki heldur til, að nokkur póstmaður hjer á landi fái starf sitt svo vel borgað, að það geti heitið nokkur borgun, saman borið við starfið.

Mig furðar á, að háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) skuli finnast hart, að deildin sje nú á móti fjárveitingunni til Öxnadalsvegarins, þar sem sú tillaga hefir áður verið feld hjer, enda sýna fjárlögin það best, að Eyfirðingar verða ekki hart úti með fjárveitingar. Hæstv. forseti hefir nú skýrt það, að afbrigða þurfi við til þess, að sú tillaga komi undir atkvæði, og vona jeg, að ekki þurfi þá frekar um þetta að tala, því að afbrigðin verði ekki veitt.

Þá skal jeg leyfa mjer að þakka hæstv. atvinnumálaráðherra fyrir till. hans viðvíkjandi fjárveitingunni til vegamálastjórans. Hann tók málið að sjer í háttv. Ed., þótt stjórnin legðist á móti því hjer í deildinni.

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) mintist á Steinunni nuddlækni og gaf þær upplýsingar, að lækningastofan mundi ekki hætta að starfa, þótt Völundur hætti að starfa í bili. Jeg skal geta þess, að sumir nefndarmanna hafa óbundnar hendur hvað þessari till. viðvíkur. En það finst mjer órjettmætt að bera saman lækningastofur þeirra Jóns Kristjánssonar og Steinunnar, því að hann hefir mörg dýr áhöld, sem hún hefir ekki.

Af því að háttv. þm. Dala. (B. J.) er ekki við, þá skal jeg taka það fram, að nefndin er á móti því, að Guðmundi »bryggjusmið« verði gefið eftir lánið, sem hann fjekk 1915. Það væri hart að gefa lánið eftir nú, þegar fyrirtækið er komið í hendur útlendinga. Enda verð jeg alvarlega að mótmæla því, að þingið hafi veitt þetta fje sem styrk, en ekki lán.

Það er þá ekki fleira, sem jeg hefi að segja að sinni. Jeg vona, að háttv. deild taki till. nefndarinnar vel, en vari sig á hinum, því að það gæti orðið til þess, að fjárlögin yrðu að fara í Sþ., ef sumar þeirra yrðu samþyktar.