04.08.1917
Efri deild: 22. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1751 í B-deild Alþingistíðinda. (1694)

27. mál, bæjarstjórn Ísafjarðar

Frsm. (Magnús Torfason):

Eftir að nefndin fjekk mál þetta til meðferðar hafa, eins og hv. þingdm. er kunnugt, þau tíðindi gerst, að frv., sem mál þetta stóð í nokkru sambandi við, er sofnað sælum svefni. Sakir þessa hefir orðið að breyta frv. að nokkru; er það sjerstaklega 1. gr., þar sem talað er um það, yfir hvert svæði umdæmi bæjarins nái. Auk þess hefir orðið að breyta tölu bæjarfulltrúa og niðurjöfnunarnefndarmanna og ákvæðum um kosning nefndarinnar.

Þá hefir nefndin lagt til, að 14. gr. frv. verði breytt eins og er í frv. um breyting á bæjarstjórnarlögum Akureyrarkaupstaðar; gerður sá munur frá upphaflega frv., að formaður skólanefndar hafi að eins umræðu- og tillögurjett á fundum bæjarstjórnar, en ekki atkvæðisrjett. Þetta er nefndinni að vísu ekkert kappsmál, en getur hins vegar vel fallist á, að rjettara sje að hafa það eins í báðum kaupstöðunum.

Í 19. gr. frv. er komist svo að orði: Niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum nær til þeirra, er lög segja fyrir um. Hjer er vitanlega átt við sveitarstjórnarlög, á hvaða tíma sem er.

Nefndin álítur, að þau lagaákvæði eigi að vera landslög, og rjettara sje að gera breytingar á slíkum ákvæðum í landslögum heldur en í sjerstökum lögum. En með því að þetta hefir ekki verið regla, hefir það orðið til þess, að kaupstaðir hafa ekki fylgst með lögunum í þessu efni, og komið fyrir, að þeir þess vegna hafa orðið af talsverðum fúlgum.

Aðrar breytingar eru ekki annað en orðabreytingar, sem jeg vona að háttv. deild, eins og nefndin, álíti að sjeu til bóta.

Jeg skal svo láta þá ósk mína í ljós, að frv. verði látið ganga áfram til 3. umr.