13.07.1917
Efri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (1722)

39. mál, fasteignamat

Magnús Torfason:

Jeg get ekki að því gert, að jeg er dálítið hissa á að sjá þetta frv. hjer fram komið í þessari mynd. Á því er hvorki haus nje hali, svo að frá því sjónarmiði veitir ekki af, að það verði sett í nefnd. En annars fæ jeg ekki sjeð, að nokkur þörf sje á því að eyða tíma í frekari umræður um þetta mál að þessu sinni. Frv. ræðir einungis um skatthæðina, en, eins og kunnugt er, ganga lögin að þessu leyti ekki í gildi, eða skattahæðin kemur ekki til greina fyr en 1. apríl 1920. Það virðist því vera nægur tími til stefnu að taka málið fyrir á næsta reglulega þingi, og það því fremur sem sjálfsagt virðist, að skýrslur allra fasteignamatsnefnda verði komnar og álit yfirmatsmanna verði leitað, áður en skattaálögur verði bygðar á matinu. Annars var 9. gr. upphaflega algerlega ofaukið í lögunum. Þau áttu að fjalla um matið eitt, en ekki um skattinn af eignunum. Þess vegna er allra hluta vegna rjettast, að málið verði látið bíða fyrst um sinn.

Jeg get ekki stilt mig um að taka það fram, að mjer finst æði mikið misrjetti vera í lögunum. Menn eiga að sleppa við svo og svo mikið af húsaskattinum undir eins og þeir eignast jarðarhundrað með þeim, en þorpararnir verða að borga fullan húsaskatt. Það er eins og menn hafi gleymt því, að þeir þurfa líka eitthvað til þess að skýla sjer með. Mjer hefði þó fundist full ástæða til þess að vægja þeim nokkuð. Það er öllum mönnum vitanlegt, að hús eru oft æði lítils virði í þorpum og kauptúnum. Nóg dæmi þess, að menn hafa orðið að rífa þau og flytja langar leiðir, sökum þess, að enginn kostur hefir verið á að selja þau.

Jeg skal svo ekki ganga frekar inn á einstök atriði frv., og get gjarnan sýnt háttv. flm. (G. G.) þá kurteisi að styðja að því, að það komist til landbúnaðarnefndar, því að jeg ber það traust til þeirrar nefndar, að hún grafi það svo djúpt, að ekki bóli framar á því á þessu þingi. En vitanlega hefði rjettara verið að vísa málinu til fjárhagsnefndar.