13.07.1917
Efri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1778 í B-deild Alþingistíðinda. (1723)

39. mál, fasteignamat

Jeg hefi fengið reynslu í því að meta svona hús, og við höfum þar tekið mest tillit til þess, hvað húsin mundu verða keypt fyrir. Því að það er vitanlega sannvirðið, sem menn sjálfir, eða aðrir, vilja kaupa eignina fyrir. Það er gott að hafa lýsinguna á jörðinni og vita, hversu marga heyhesta hún gefur af sjer, en aðalatriðið er og verður:

Hvað selst jörðin fyrir?

Jeg er í landbúnaðarnefndinni og ætti því fremur að vilja, að málinu væri vísað þangað, en jeg tel rjettara, að því sje vísað til fjárveitinganefndar, því að málið snertir mest fjármál. En ekki hefi jeg þá ótrú á háttv. meðnefndarmönnum mínum í landbúnaðarnefndinni, að þeir græfu frv. svo djúpt, að það kæmi ekki framar í dagsljósið. Jeg efa ekki, að hún skili því aftur, má ske eitthvað breyttu, og því hefi jeg ekkert á móti. Annað hlýtur öllum að vera óskiljanlegt, þar sem jeg á sjálfur sæti í nefndinni, og eigi er jeg hræddur að flytja mál, þótt það fái mótbyr. Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) má vita það, að jeg hefi oftar borið sigur af hólmi, og það enda þótt jeg hafi verið í minni hluta fyrst.