08.08.1917
Efri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1781 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

39. mál, fasteignamat

Frms. meiri hl. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg skal ekki fara mörgum orðum um álit meiri hluta nefndarinnar nje skoðun hans á þessu máli; hún kemur skýrt fram á þgskj. 302, en hins vegar vil jeg ofurlítið víkja að nefndaráliti minni hlutans, á þgskj. 317.

Fyrri hluti nefndarálitsins á þgskj. 317 eru almennar frjettir um það, hvernig það hafi gengið til á nefndarfundum, eða má ske, rjettara sagt, hvernig minni hlutinn haldi, að það hafi verið á fundunum, en þar kennir sumstaðar ekki svo lítils misskilnings hjá háttv. þm. (G. G.); þannig hefi jeg t. d. — og eins mun mjer vera óhætt að segja að sje um samnefndarmann minn, háttv. 5. landsk. þm. (H. Sn.) — aldrei látið það í ljós, að jeg teldi breyting hans að neinu leyti, smáu eða stóru, til bóta á 9. gr. fasteignamatslaganna. Þar sem það er álit meiri hluta nefndarinnar, að breytingin sje ekki til bóta, þá leggur hann til, að frv. sje felt, og getur ekki sagt, að till. sjeu góðar og gagnlegar, eins og minni hlutinn vill telja þær.

Og meiri hluti nefndarinnar verður enn fremur að líta svo á, að það geti oft verið brýn nauðsyn og mjög þarft að nota tíma þingsins til þess að hefta það, að algerlega óþörf, og enda skaðleg, frv. nái fram að ganga, eins og það á hinn bóginn er nauðsynlegt og rjett að eyða tíma til þess að vinna að því og hjálpa til þess, að góð og gagnleg frv. nái fram að ganga.

Minni hl. nefndarinnar (G. G.) segist hafa hneykslast á því, hversu lengi frv. var hjá nefndinni, og hefir oftar um það kvartað. Mjer er nú óhætt að fullyrða það, að það er ekki meiri hluti nefndarinnar, sem á sök á því. Meiri hlutinn var löngu fyr búinn með álit sitt en minni hlutinn, svo að eigi stóð á honum, en það er ef til vill yfirsjón, að það lá alllengi hjá nefndinni áður en því var skilið til prentunar; þó var meiri hlutinn þar miklu fyr tilbúinn en minni hlutinn.

Þá kvartar minni hlutinn (G. G.) yfir því, að hann hafi ekki fengið álit meiri hlutans til álits og andsvara, líklegast eftir ítrekaðar tilraunir. En um þetta er það að segja, að hann hefir aldrei beðið mig um nefndarálitið. Það fá því allir sjeð, úr hverju vefur hans um þetta er ofinn.

Á fundi nefndarinnar var honum lesið álit meiri hlutans, og liggur það hjer prentað orði til orðs fyrir framan háttv. þingdm., eins og það var upp lesið, og þá gerði hann engar aths. Hafði því háttv. minni hluti að eins uppkast að nefndaráliti sínu til upplestrar fyrir meiri hluta nefndarinnar, enda kemur það nú fyrir háttv. deild í mjög breyttri útgáfu.

Þá skýrir háttv. þm. (G. G.) frá því, að hann hafi á 17 þingum setið, og hefi jeg ekki gætt að, hvort þar er rjett skýrt frá, en hann er tekinn að gerast maður gamlaður. Þykir honum þessi þingnefnd lítt möguleg og segist enga slíka hafa áðar þekt. Jeg held, að minni hans sje farið allmjög að bila; jeg hefi eigi á mörgum þingum setið, en þó hefir það komið fyrir mig oftar en nú, að nefnd hafi klofnað, og hafa nefndarhlutirnir gefið hver sitt álit og það alveg sjálfstætt. Jeg held, að þessi nefnd sje í þessu efni ekki neitt nýtt fyrirbrigði.

Jeg held annars, að hv. minni hl. nefndarinnar (G. G.) verði að kunna mönnum þakkir fyrir, að málið hefir dregist. Tíminn hefir ekki verið óþarfur fyrir hann; hann hefir legið á meltunni og kemur fram með breytingar á frv. sínu, og breytingarnar eru ekki að eins breytingar að forminu til, eins og hann gefur í skyn, heldur líka efnisbreytingar.

Í frv. sínu gerir hann ráð fyrir, að síðustu 10 ára umbætur á jörðinni og húsum sjeu skattfrjálsar, en í brtt. sínum ætlast hann til, að skattur sje á þær lagður.

Hjer er um meira en formbreytingu að ræða; hjer er að ræða um efnisbreytingu.

Í nefndaráliti sínu ákveður hann vissan skatt af húseign leiguliða, en í frv. er ekki gert ráð fyrir skatti af henni.

Við 2. gr. frv. hefir hann einnig gert brtt. og leggur nú til, að kaup yfirfasteignamatsmanna verði hækkað. Þá brtt. hefir hann ekki borið fram fyr, en það má segja það um hana, að hún sje ekki nema eðlileg, ef kaup fasteignamatsmannanna er hækkað.

Þá vildi hann (G. G.) áður, að kaup fasteignamatsmanna væri hækkað bæði fyrir liðinn tíma og komandi tíð, en nú leggur hann til, að kaupið sje hækkað, en að hækkunin nái ekki til liðins tíma. Hjer er um glögga efnisbreytingu að ræða.

Það má því öllum ljóst vera, að háttv. minni hl. (G. G.) hefir notað tímann mjög vel til þess að — skifta um skoðun.

Annars gerir minni hl. (G. G.) lítið úr ástæðum meiri hlutans, en jeg fæ ekki sjeð, að. hann hafi hrakið neitt, er meiri hlutinn hefir sagt.

Og víst er um það, að ef brtt. minni hl. (G. G.) yrði samþ., þá gæti hún valdið ruglingi á matinu. Það er því hættulegt að samþykkja nú þessa breytingu.

Þá eru ástæður meiri hluta nefndarinnar að engu leyti hraktar með ummælum hv. minni hl. (G. G.) um þær, því að þótt fasteignamatsnefndir bókfæri sjer í lagi hverja fasteignategund í húsi sjer, jörð sjer, 10 ára mannvirki sjer o. s. frv., munu þær að líkum aðgæta, hve mörg hundruð það gerir samanlagt, og hefir það þá ef til vill einhver áhrif á málið, hvað þeim finst hæfilegt hundraðatal á jörðu með húsum. Stendur álit meiri hlutans þar óhaggað fyrir svörum háttv. flm. (G. G.).

Kauphækkunina hefi jeg minst á áður, og get jeg tilfært þau orð mín aftur, að kaupið verður að teljast sæmilegt, saman borið við kaup það, sem flestir aðrir opinberir starfsmenn hafa. Og ef það yrði hækkað nú, þá yrði það að teljast sem nokkurskonar verðlaun til þeirra, sem skemst eru á veg komnir með starfið.

Þær ástæður háttv. flm. (G. G.), að ilt sje að eyða málinu nú, eftir svo langar umr. og vinnueyðslu, get jeg ekki talið mikilvægar.

Jeg hefi að vísu haldið eina stutta ræðu í málinu, en því skal ekki neitað, að háttv. flutnm. (G. G) teygði eigi alllítið úr flutningsræðu sinni. En slíkt er engin nýlunda, þótt hann gerist langorður um lítið efni. Eitt var þó athugavert í þeirri löngu ræðu hans. Það var, hve vel hann sagðist hafa kynt sjer málið. Sannleika þeirra orða komast menn best að raun um ef þeir athuga, hversu vel er frá frv. gengið. Eitt dæmi þess er það, að hann hefir sjálfur orðið til þess að koma með brtt., sem gerbreyta báðum greinum þess.

Skal jeg svo ekki tefja tímann lengur, en vona, að háttv. deild sje sannfærð um, að frv. sje illa úr garði gert, og sömuleiðis nefndarálit og breytingartillögur háttv. minni hluta nefndarinnar (G. G.).