17.08.1917
Neðri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (1747)

39. mál, fasteignamat

Stefán Stefánsson:

Það er næst að halda, að háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) hafi ekki lesið lagagreinina, sem um er að ræða að fella burt. Skal jeg með samþykki forseta lesa hana. Hún hljóðar svo:

»Til ábúðarskatts skulu hverjar 150 kr. í matsverði jarða taldar 1 hundrað á landsvísu. En því skal slept til ábúðarskatts, sem verð húsa kann að fara fram úr helmingi af matsverði jarðar, að undanskildu verði húsanna og þeirra mannvirkja og umbóta, sem gerð hafa verið á jörðunum síðustu 10 árin.

Húsaskattur af skattskyldum húsum skal tekinn af matsverði húsanna, að viðbættu matsverði þeirrar lóðar eða lóðarrjettinda, er hverri húseign fylgir«.

Hjer er bæði tekið fram um ábúðar- og húsaskattinn, og ætti öllum að vera sjáanlegt, að nauðsynlegt er að halda þessum ákvæðum, þá breyttum eða nokkru ljósari, því að vart getur það gengið, að ekkert sje um þetta sagt.

Um hitt atriðið, að vafamál sje, hvort kauphækkunin eigi að gilda fyrir allan tímann, sem fasteignamatið hefir staðið yfir, eða að eins þann tíma, sem eftir er, þegar breytingin kemur í gildi, skal jeg geta þess, að efri deildar mönnum, sem þegar hafa samþykt frv., ber ekki saman um, hvort heldur sje, og jeg hefi einnig borið þetta undir lögfræðing, og hann taldi það mjög mikið vafamál; þó öllu líklegra, að það tæki yfir allan starfstíma nefndanna, enda munu fleiri skilja breytinguna þannig. Háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) verður því að viðurkenna, að það er full nauðsyn á að gera þetta ljósara.

Jeg vildi að eins vekja athygli á þessu, svo að frv. gengi ekki athugunarlaust í gegnum deildina.