29.08.1917
Neðri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

39. mál, fasteignamat

Jón Jónsson:

Nefndin hefir komið sjer prýðilega vel saman, að öðru en því, að við tveir höfum ekki viljað breyta launaupphæðinni, hv. þm. Mýra. (P. Þ.) og jeg, en þó verið sammála hinum um það að tiltaka launahækkunina frá 1. jan. þ. á. Við teljum ekki ofhátt að setja kaupið 7 kr. á dag, sjerstaklega á þessum tíma, þegar þess er gætt, að matsmennirnir þurfa að ferðast og kaupa dýra vinnu fyrir sig, sem tæplega fæst fyrir minna. Okkur finst einnig rjett að bæta upp, hvað starfið hefir verið lágt launað frá fyrstu, svo að það verði þá 6 kr. á dag að jafnaði með þessari till. okkar. Okkur hefir þótt óþægilegra að láta frv. ná lengra aftur fyrir sig en til 1. jan. þ. á.

Jeg vænti, að deildin fallist á, að kauphækkunin sje nauðsynleg, með því líka að ýmsir matsmenn bíða með óþreyju eftir úrslitum þessa frv. og láta í veðri vaka, að þeir muni segja af sjer, ef hækkunin verður ekki samþ.