29.08.1917
Neðri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (1751)

39. mál, fasteignamat

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Jeg ljet þess getið, að meiri hluta nefndarinnar væri ekkert verulegt kappsmál um kaupið. En jeg vil geta þess, að jeg hefi fengið yfirlit yfir reikninga þá og vinnudaga, er nefndirnar hafa gefið til stjórnarráðsins, og eftir því að dæma er vafasamt, hversu samviskusamlega sumir reikningarnir eru gerðir; t. d. er útborgun til einnar nefndarinnar orðin yfir 4800 kr., en aftur í sumum öðrum innan við 1000 kr. Þetta er óneitanlega hálfundarlegt, að svo afarmisjafnlega langan tíma skuli hafa verið að matinu unnið, og þegar þess er líka gætt, að sú sýsla, sem hæst hefir komist með sinn vinnureikning, byrjaði ekki fyr en í júní 1916. Eftir þessu virðist, svona í fljótu bragði, hafa verið notuð dálítið misjafnlega heimildin til að gefa vinnureikningana, svo að spurning geti jafnvel verið um það, hvort hækka beri dagkaupið, þar sem upphæðirnar eru svona afarmismunandi.