16.07.1917
Efri deild: 9. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1811 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

54. mál, húsmæðraskóli á Norðurlandi

Flm. (Magnús Kristjánsson):

Hæstv. forseti mæltist til þess á síðasta fundi, að þingmenn takmörkuðu umræður svo sem unt væri, vegna hins mikla kostnaðar við að prenta þingtíðindin. Jeg skal reyna að verða við þessum tilmælum, enda hefir mjer ekki verið brugðið um óþarfa mælgi hingað til.

Jeg býst við, að háttv. þingdm. hafi kynt sjer frv. með þeim ástæðum, er því fylgja, og býst því ekki við, að það þurfi neinna sjerstakra skýringa við, enda þykir ekki vel við eigandi að fara út í einstök atriði við 1. umr. Nokkur orð um undirbúning málsins verð jeg þó að láta fylgja því inn í hv. deild.

Það vill svo vel til, að þetta mál er ekki neinn nýr gestur, þótt ekki hafi það, mjer vitanlega, verið borið fram í frumvarpsformi í þessari deild. Á Alþingi 1915 bar jeg fram tillögu um fjárveitingu í sama skyni; sú tillaga náði þá allmiklum byr, en fyrir óhapp eða illvíga »agitation« var hún feld; hefir það mælst mjög illa fyrir. En það er, sem betur fer, um þetta mál, eins og mörg önnur góð málefni, að þótt í bili takist að víkja þeim út af rjettri braut, þá koma þau fram aftur, og það verður löngum svo, að betri málstaðurinn sigrar. Jeg lít svo á, að það sje að eins tímaspurning, hve nær þetta mál kemst fram, en þrátt fyrir það virðist það ekki nema rjett, að þingið láti uppi stefnu sína í þessu máli.

Hjer er ekki um neitt fljóthugsað fleipur að ræða; geta menn sannfærst um það, ef menn vilja kynna sjer skjöl þau um þetta mál, er liggja frammi á lestrarsalnum. Eru þau undirskrifuð af alt að tveim þúsund konum og von á fleiri undirskriftum bráðlega. Enn fremur liggur þar frammi ávarp til Alþingis, undirskrifað af 15 konum, og hygg jeg, að flestir muni líta svo á, að þær sjeu meðal hinna fremstu kvenna norðanlands, og jafnvel þótt víðar væri leitað.

Þetta virðist mjer full sönnun þess, að málið sje ekki ótímabært. Þessar konur finna það best, hvar skórinn kreppir, að því er snertir þörfina fyrir slíka stofnun. Mjer er kunnugt um, að konurnar byggja vonir sínar, meðal annars, um fljótan og góðan framgang þessa máls á því, að hjer í deildinni sitja menn, sem barist hafa fyrir jafnrjettiskröfum þeirra í opinberum málum. Þær treysta því, að ekki hafi verið ætlast til, að jafnrjettið væri að eins í orði, en ekki á borði, og því bera þær nú fram þessa kröfu, sem þær telja eitt hið allra mesta nauðsynjamál hinnar uppvaxandi kynslóðar.

Kröfur þær, sem hjer eru fram settar, geta ekki talist annað en hógværar. Það er ekki farið fram á það, að málinu sje hraðað svo mjög, heldur að eins, að því verði gaumur gefinn og því sint, þegar ástæður breytast og tími kemur til framkvæmda. Aðrar kröfur er ekki hægt að gera að svo stöddu. Hvort þeim verður fullnægt er undir því komið, hvort háttv. þm. viðurkenna þennan rjett kvennanna til sjermentunar í líkum mæli og karlmenn geta notið. Jeg legg því þetta mál öruggur undir dóm hæstv. Ed., í fullu trausti þess, að til hennar sje valið svo vandað og í henni sitji svo þroskaðir menn og víðsýnir, að þeir muni ekki kæfa nýgræðing þennan, heldur þroska hann og hlúa að honum eftir föngum.

Það er líka ósk mín, að málið verði tekið til rækilegrar íhugunar og greiddur gangur þess sem fyrst hjer í háttv. Ed., svo að háttv. Nd. fái einnig að fjalla um það; því að fari nú svo, sem mjer þykir ótrúlegt, að því yrði brugguð banaráð, þá þætti mjer þó viðkunnanlegra, að þessi háttv. deild hefði ekki orðið til þess.

Sannfæring mín er sú, að ef mál þetta nær fram að ganga, þá verði það til þess, að konum gefst kostur á að þroska sína miklu og góðu hæfileika, til ómetanlegs gagns fyrir þjóðina.

Vil jeg svo gera það að tillögu minni, að málinu verði vísað til mentamálanefndar. Vona jeg, að hún skilji mikilvægi þess og veiti því stuðning sinn.