16.07.1917
Efri deild: 9. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1813 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

54. mál, húsmæðraskóli á Norðurlandi

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg er þakklátur háttv. flm. (M. K.) fyrir að hafa komið fram með frv. þetta, sem fer í þá átt að bæta þroskaskilyrði kvenna. Allir munu sammála um það, að hjer er um brýna nauðsyn að ræða, ekki síst þegar þess er gætt, að konur hafa nú þegar fengið aukin rjettindi sín að miklum mun og hafa þegar tekið þátt í alþingiskosningu þeirra háttv. þm., er hjer sitja.

Jeg er háttv. flutnm. (M. K.) sammála í öllum aðaldráttunum. Jeg vildi að eins víkja að því nokkrum orðum, að mál þetta er ekki nýr gestur hjer. Það eru þegar liðin 10 ár síðan um það var fjallað fyrst á Alþingi. Væri því vel við eigandi, í sambandi við hluttöku kvenna í kosningum, að það yrði nú afgreitt.

Jeg tók svo eftir, að háttv. flm. (M. K.) segði, að málið hefði ekki fyr komist inn á þing í frumvarpsformi. Það er ekki rjett athugað, því að 1907 var lagt fyrir Alþingi frv. um þetta efni (þgskj. 512), og var það samþykt í Nd. Var upphaflega til þess ætlast, að settir yrðu á stofn 2 slíkir skólar, annar á Suðurlandi, en hinn á Norðurlandi.

Skólar þessir áttu að vera hið sama fyrir konur sem búnaðarskólar eru fyrir karlmenn. Neðri deildar frv. gerði að eins ráð fyrir einum skóla, og það á Norðurlandi. Í Ed. varð frv. ekki útrætt.

Árið 1909 kom fram till. til þingsályktunar í Nd., þar sem skorað var á landsstjórnina að taka málið til rækilegrar íhugunar og leggja fyrir næsta þing till. um stofnun húsmæðraskóla.

Till. þessari fylgdi allítarlegt nefndarálit, sem jeg vona að háttv. mentamálanefnd kynni sjer, ef málinu verður vísað til hennar.

Árið 1911 bar málið enn á góma, í sambandi við ósk Múlsýslunga um það, að landið tæki að sjer Eiðaskóla. Margir voru þá þess hvetjandi, að þar yrði settur á stofn húsmæðraskóli.

Alt miðar þetta, sem jeg nú hefi drepið á, að sama markinu, að konan verði sem bestrar mentunar og þroska aðnjótandi og eigi því hægra með að gegna vandastörfum þeim, er á húsmæðrum hvíla. Vona jeg, að allir sjái, að hjer er ekki um neitt hjegómamál að ræða.

Vona jeg líka, að háttv. þm., og þá ekki síst læknar þeir, er hjer eiga sæti, þeir hæstv. forseti og háttv. þm. Snæf. (H. St.), viðurkenni fyllilega þörfina á fræðslu þeirri í heilsufræði, sem frv. fer fram á, auk kenslu í öðrum greinum, sem að meira eða minna leyti grípa inn á svið hreinlætis og heilbrigði.

Lít jeg svo á, sem þetta hafi bæði siðmenningar- og fegurðarþýðingu fyrir heimili vor, og þá ekki síður fjárhagslega þýðingu, því að satt mun reynast máltækið: »Ef bóndinn eyðir, brennur búið hálft; ef konan eyðir, brennur búið alt«.

Þess ber líka að gæta, að um leið og þetta er þjóðþrifakrafa, er það líka jafnrjettiskrafa. Og það er ekki nóg að gefa með annari hendinni, en halda hinni kreptri utan um skilyrðin fyrir því, að gjöfin geti orðið að notum.

Það á ekki við, á þessu stigi málsins, að fara út í einstök atriði; verður sjálfsagt kostur á því við 2. umr.

Vil jeg þó með örfáum orðum minnast á nokkur atriði. Hefi jeg tekið eftir því, að ekki ber saman frv. og dagskránni. Í frv. stendur nafnið »hússtjórnarskóli«, en á dagskránni »húsmæðraskóli«. Felli jeg mig miklu betur við hið síðara. Þetta er að vísu smávægilegt atriði og verður sjálfsagt athugað síðar; en til þess er málið að skýra hugsunina, og skylt er að vanda það svo, að ákveðið sje og afmarkað það, sem við er átt. Þá er annað atriði, sem líka verður að bíða til síðari athugunar, og má búast við, að um það verði ekki allir á eitt sáttir. Það er, hvar best muni að hafa skólann. Um það er ekkert ákveðið í frv. Má þar ganga að því vísu, að dómar verði misjafnir. Veit jeg um marga, sem vilja hafa skólann í sveit og hyggja hann þar betur kominn en í kaupstað.

Í sambandi við það vil jeg leyfa mjer. með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp áskorun frá allmörgum konum úr nokkrum sýslum á Norðurlandi:

»Vjer undirritaðar konur á Norðurlandi viljum hjer með skora á hið háa Alþingi Íslendinga að gera ráðstafanir til þess, að komið verði á fót húsmæðraskóla í sveit á Norðurlandi, svo fljótt sem ástæður frekast leyfa.

Vjer viljum sjerstaklega leggja áherslu á það, að skólinn verði settur í sveit og hafi jörð til afnota, því vjer álítum, að með því sje meiri trygging fyrir því, að skólinn geti komið að haldgóðum notum fyrir alþýðukonur.

Mars 1917.

Virðingarfylst.

Guðrún Sigurðardóttir, Halldórsstöðum, S.-Þingeyjarsýslu.

Halldóra Arnljótsdóttir, Þórshöfn, N.-Þingeyjarsýslu.

Hólmfríður Pjetursdóttir, Gautlöndum, S.-Þingeyjarsýslu.

Jónína Sigurðardóttir Líndal, Akureyri.

Kristbjörg Marteinsdóttir, Ystafelli, S.-Þingeyjarsýslu

Margrjet Simonardóttir, Brimnesi, Skagafjarðarsýslu.

María Jónsdóttir, Reykhúsum, Eyjafjarðarsýslu.

Ragnheiður Davíðsdóttir, Fagraskógi, Eyjafjarðarsýslu.

Sigríður Ólafsdóttir, Árgerði, Eyjafjarðarsýslu.

Sólveig Pjetursdóttir, Völlum, Eyjafjarðarsýslu.

Valgerður Lárusdóttir Briem, Hrafnagili, Eyjafjarðarsýslu.

Vilborg Guðmundsdóttir, Grjótnesi, N.-Þingeyjarsýslu.«

Jeg drep að eins lauslega á þetta atriði nú, hvar skólinn eigi að standa. Þeir, sem vilja koma með ákveðnar skoðanir í því efni, munu fá tækifæri til þess síðar. Annars býst jeg við, að ágreiningur verði um það í báðum deildum. En von mín er sú, að það verði aldrei frv. til falls, og illa væri það farið, ef einhver annar smávægilegur ágreiningur yrði því að fótakefli. Get jeg ekki heldur sjeð, að við slíku sje hætt, því að hjer er ekki farið fram á neitt, sem stranda þarf á yfirstandandi ástæðum. En þá væri vel farið, ef við gætum unnið að þjóðþrifamálum og bygt fyrir komandi kynslóðir í kyrþei, meðan hæst láta herbrestirnir og vopnagnýrinn í umheiminum.

Jeg vil styðja till. háttv. flm. (M. K.), að máli þessu verði vísað til mentamálanefndar og vona jeg, þótt ágreiningur kunni að rísa um einstök atriði, þá komi hún sjer saman og sjái bestu leiðirnar.

Jeg sje, að háttv. flm. (M. K.) hefir beðið um orðið, en býst ekki við að geta svarað athugasemdum þeim, er hann kann að gera við ræðu mína, vegna þess, að jeg er kallaður hjeðan úr þingsalnum.

Annars vil jeg benda honum á það, að ef skólinn yrði stofnaður í sveit, þá þætti mjer vel við eiga, að stofnaður yrði sjerstakur skóli á Akureyri, á líkan hátt og Húnvetningar hafa gert hjá sjer. Mundi þeim skóla sjálfsagt verða veittur opinber styrkur. Finst mjer, að þetta gæti verið millivegur. Viðurkenni jeg það fúslega, að þörf er á slíkum skóla í kauptúnum, ekki síður en í sveit, en öðruvísi er þar til háttað og annað, sem með þarf. Mundi það því óneitanlega vera besta ráðið að hafa hvorn skólann á sínum stað.