21.08.1917
Efri deild: 35. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (1768)

54. mál, húsmæðraskóli á Norðurlandi

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg gat um það við 1. umræðu þessa máls, að það væri almennur áhugi á því um alt Norðurland, að þessi skóli kæmist á fót; þetta hefir síðan komið enn betur í ljós með fjölda undirskrifta til Alþingis, svo að jeg þarf ekki að fjölyrða um það. En það er skoðanamunur um það, hvort skólinn eigi að vera í sveit, á Akureyri eða í grend við Akureyri, en þennan ágreining vil jeg ekki gera að kappsmáli og er samþykkur háttv. þm. Ak. (M. K.), að best sje að halda honum fyrir utan frumvarpið.

En mjer er ekki vel ljóst, hvað nefndin skilur við það, að skólinn eigi að standa við Eyjafjörð. Á hún þar við alla Eyjafjarðarsýslu og við Suður-Þingeyjarsýslu og eftir bygð í Eyjafirði, svo langt sem góðar flutningabrautir ná frá Akureyri, t. d. alt inn að Grund? Ef nefndin lýsir ekki yfir öðru, verð jeg að líta svo á, sem þetta sje skilningur hennar, því að jeg verð að taka undir með háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) um, að jeg tel sveitaskóla æskilegri.

Hvað fjárframlagið snertir, þá finst mjer það ekki vera fráfælandi, og má í því efni benda á frv. um afhending Eiðaskólans sem náskylt mál. Hjer verða það minst 4 sýslufjelög og 1 bæjarfjelag, sem taka þátt í kostnaðinum, svo að þriðjungur stofnkostnaðarins ætti ekki að vera þeim ofvaxinn.