15.09.1917
Efri deild: 59. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Þær, sem mikilsverðastar eru, og fjárveitinganefndin mundi hafa lagt til að breytt yrði, ef ekki væri gengið að frv. eins og það er, eru:

Fyrst, að samþykt var að lækka styrkinn til skrifstofukostnaðar sýslumanna úr 10300 kr. niður í 5000 kr. Þetta er frá sjónarmiði meiri hluta fjárveitinganefndarinnar óþörf breyting, og hann lítur svo á, sem sæmra hefði verið að fella styrkinn alveg niður en fara svo með hann, sem hjer er gert, lækka hann um meira en helming. Því að hjer er orðið um svo mikla smámuni að ræða, að sýslumennina getur það engu munað upp í skrifstofukostnað sinn.

Annað atriðið, sem fjárveitinganefndin hefði talið rjett að breyta aftur, ef til hefði komið, er að háttv. Nd. hefir lækkað laun vitamálastjóra um 200 kr., frá því er Ed. vildi vera láta. Vitanlega er hjer um litla upphæð að ræða, en manni getur ekki fundist annað en að háttv. Nd. hafi hjer sýnt frámunalegan smásálarskap gagnvart þörfum starfsmanni landsins.

3. atriðið, sem nefndin hefði lagt áherslu á að breytt yrði, ef nokkru hefði verið breytt, er breyting sú, er háttv. Nd. hefir gert á orðabókarstyrknum, að hækka hann úr 3000 kr. upp í 6000 kr. Fjárveitinganefnd Ed. og háttv. Ed. álíta, að við verðum að láta oss nægja að styrkja einn mann til þessa starfs, en fjárveitinganefnd Nd. og háttv. Nd. vill styrkja 2 menn til þess, en það er sýnilegt af breytingu nefndarinnar, að hún ætlar öðrum þeirra ekki nema 2,400 kr. í árskaup. En það mun koma fljótt á daginn, að hann telji sjer ekki líft hjer með 2,400 kr. launum, og verður þá farið fram á, að styrkurinn verði hækkaður. Því er það, að fjárveitinganefndin telur rjettara að stilla þetta við hóf og styrkja að eins einn mann til starfsins.

4. atriðið, sem fjárveitinganefndin hefði lagt til að breytt yrði, er um styrkinn til dr. Helga Jónssonar til þararannsóknar. Nefndin verður að vera sömu skoðunar og fyr um það, að þessari rannsókn eigi að mestu að vera lokið innan árs, og að allra síst eigi rannsóknin eða fjárveiting til hennar að verða áframhaldandi ár eftir ár, en það er eins líklegt, að svo verði, þar sem styrkurinn er veittur bæði árin.

5. atriðið er um, að fjárveitinganefnd Nd. hefir fengið strikaðan út styrkinn til stórstúkunnar, en í þess stað er samþykt að veita hann Bræðrasjóði Mentaskólans. Jeg hygg, að meiri hluta Ed. og fjárveitinganefndar hefði þótt betur farið, að styrkurinn hefði verið strikaður út í Nd. en að honum hefði verið breytt á þessa lund, og mjer finst þetta vera hálfvegis að gera gys að Stórstúku Íslands, um leið og styrkurinn til hennar er strikaður út, er sje með öllu ósamboðið virðingu þingmanna.

Aðrar breytingar eru ekki stórvægilegar, nema ein breyting frá stjórninni, um að bæta inn í 18. gr. 3500 kr. í eftirlaun og ritstyrk til Indriða skrifstofustjóra Einarssonar. Jeg skal ekki fara mörgum orðum um þetta, en jeg býst við, að ef nefndin hefði á annað borð gert brtt. við frumvarpið, þá hefði hún athugað þennan lið, og ólíklegt tel jeg, að allir nefndarmenn hefðu orðið samþykkir svo háum eftirlaunum.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, en vil fyrir hönd fjárveitinganefndarinnar mæla með því, að frv. verði samþykt óbreytt, en þó er það hvorki með ánægju nje gleði, heldur af því, að tíminn er naumur, og aðrar kringumstæður knýja til þess.