21.08.1917
Efri deild: 35. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

54. mál, húsmæðraskóli á Norðurlandi

Magnús Kristjánsson:

Jeg skal ekki deila um það, hvar skólinn eigi að standa, en jeg vil taka það fram, að það er gersamlega ómaklegt að gera lítið úr undirbúningi þeim, er konur á Akureyri hafa gert í þessu efni, eins og háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) leitaðist við að gera. Forgöngukonurnar á Akureyri hafa sýnt það, að þær hafa mikinn áhuga á málinu, og þær hafa unnið mikið að undirbúningi þess; þær hafa safnað álitlegum sjóði til styrktar fyrirtækinu, og það er gersamlega rangt að segja, að þær hafi að eins rifist um skólastaðinn.

Sami háttv. þm. (G. Ó.) var og að tala um það, að það mætti ekki eingöngu líta á það, hvar ódýrast væri að byggja skólann, heldur bæri og að taka tillit til þess, að ódýrara væri að reka skóla í sveit. Jeg hefi ekki áður heyrt neinn gera sjer von um það, og mjer er hulið, á hverju sú von er bygð.

Hann taldi það lítil meðmæli með að skólinn væri í Eyjafirði, að þar hefði kvennaskóli lagst niður. Hann virðist ekki hafa gert sjer þetta atriði ljóst. Eyfirðingar hjeldu uppi kvennaskóla yfir 30 ár, án þess að fá til hans styrk af opinberu fje, og hann lagðist fyrst niður fyrir ofurkapp Húnvetninga. Og jeg sný ekki aftur með það, að þegar þessi mál eru rædd, þá verður Blönduósskólinn ekki tekinn til fyrirmyndar, og hefi jeg heyrt margan Húnvetning játa það, og að það hafi ekki verið heppilegt, þegar það tókst, fyrir viðburðanna rás og »agitationir«, að fá fje úr landssjóði til skólabyggingar á Blönduósi og að leggja niður kvennaskóla Eyfirðinga eftir 31 ára starfsemi, og það án styrks. Hefðu Húnvetningar rekið Blönduósskólann án alls styrks af opinberu fje, eins og Eyfirðingar gerðu, þá hefði háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) mátt frómt úr flokki tala, en, eins og nú er ástatt, tel jeg rjettast fyrir hann að spara tilraunir sínar til að spilla þessu máli.