21.08.1917
Efri deild: 35. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

54. mál, húsmæðraskóli á Norðurlandi

Frsm. (Eggert Pálsson):

Háttv. minni hluti hefir nú gert grein fyrir fyrirvara sínum, og eru það aðallega tvö atriði, sem honum valda.

Hið fyrra er það, að hann gerir sig ekki ánægðan með þá brtt. nefndarinnar, sem skipar svo fyrir, að skólann skuli stofna við Eyjafjörð.

Hitt ágreiningsatriðið er það, að minni hlutinn óskar þess, að síðustu grein frv. verði breytt þannig, að framkvæmdir skuli gerðar þegar fje verður veitt til þeirra í fjárlögunum. Meiri hlutinn sjer ekki ástæðu til þess að kveða svo á, hugði nægja, eins og stendur í frv., að ekki skyldi framkvæma verkið fyr en efni yrði fáanlegt.

Um fyrra ágreiningsatriðið, hvar skólinn eigi að standa, skal jeg ekki fara mörgum orðum, enda mundi jeg tala frekar frá mínu eigin brjósti en nefndarmannanna hinna tveggja, ef jeg færi langt út í þær sakir. Þó þykist jeg mega lýsa yfir því, fyrir hönd meiri hlutans, að hann vildi afmarka það, að skólinn skyldi ná til Þingeyjar- og Eyjafjarðarsýslna og Akureyrar, en ekki alls Norðurlands. En eftir ákvæði frv. um, að skólann skuli stofna á Norðurlandi, þá mætti eins reisa hann í Skagafjarðar- eða Húnavatnssýslum, og jafnvel mætti reisa nýtt skólahús á Blönduósi. En með því að tiltaka, að skólinn skuli standa við Eyjafjörð, er sett ákvæði, sem miðast jafnt við alla þrjá hlutaðeigendur, Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslur og Akureyrarkaupstað, sem öll liggja að Eyjafirði.

Frá eigin brjósti get jeg sagt það, að jeg efast ekki um það, að hagkvæmast verður að stofna skólann þar, sem hægast er fyrir fjöldann að ná til hans. Bygging frv. bendir líka ótvírætt í þá átt, því að þar sem ætlast er til, að skólinn rúmi 40 nemendur, en heimavist er ekki áætluð nema fyrir 24, þá hlýtur að vera til þess ætlast, að einnig sje hægt að sækja skólann annarsstaðar frá.

Ef skólinn yrði settur í afdali eða strjálbýli, yrði auðvitað að hafa heimavist fyrir alla nemendur hans.

Annars vonar meiri hluti nefndarinnar, að þótt ágreiningur sje enn þá um staðinn, þá muni það lagast síðar meir, án þess að grípa þurfi til úrskurðar um það með harðri hendi.

En með tilliti til þessa ágreinings var það, að nefndin ákvað, að tillag hjeraðanna skyldi vera ? kostnaðinum. Býst jeg helst við, að nefndin hefði ekki farið fram á meira en ¼, hefði enginn ágreiningur verið. En eins og nú stendur, þótti ekki veita af þeim spora að heimta tillag, sem nemur ? hluta kostnaðarins. Og ef samkomulag fæst milli sýslnanna og Akureyrar, þá mun sú byrði ekki verða ýkjaþung, ef hún er borin sameiginlega, en ef ágreiningnum heldur áfram, mun ekki veita af að hafa tillagið þetta hátt. Því að ef skólinn yrði reistur tillagslaust eða tillagslítið, segjum á Akureyri, og sýslurnar heimtuðu svo annan fyrir sig með sömu skilmálum, þá virðist mjer það ofmikið af því góða. Því að þótt jeg sje máli þessu hlyntur, eins og það nú liggur fyrir, þá teldi jeg einn skóla í sveit á Norðurlandi, annan á Akureyri, þriðja þegar fyrir á Blönduósi, helst til mikið af því tægi; ekki hvað síst þegar þess er gætt, að auk skólans hjer í Reykjavík mundu verða heimtaðir skólar á Suðurlandi, Austfjörðum og Vestfjörðum, til jafnvægis upp á móti norðlensku skólunum. Jeg tel því þess vegna heppilega ráðið að ákveða tillagið svona hátt, sem við leggjum til í brtt. okkar, og sennilegt, að það gæti orðið til þess, að óskirnar um fleiri og fleiri skóla gengju ekki úr öllu hófi fram.

Jeg hefi svo lítið frekar um málið að segja, en frá mínu sjónarmiði mundi skólinn reistur í sveit ekki geta borið sig eins vel og ef hann væri reistur í kaupstað eða þjettbýli, svo sem t. d. Akureyrarkaupstað, því að eftir fenginni reynslu verður ekki mikið úr afrakstri sveitabúskaparins, á móts við erfiðleikana, sem þar er við að etja, sjerstaklega alla aðflutninga, eins og samgöngum á landi er hjá oss háttað.