07.09.1917
Neðri deild: 54. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1832 í B-deild Alþingistíðinda. (1782)

54. mál, húsmæðraskóli á Norðurlandi

Stefán Stefánsson:

Þótt jeg hafi sett nafn mitt undir nál. með fyrirvara, er það ekki svo að skilja, að jeg sje á móti brtt. nefndarinnar, heldur var mjög góð samvinna um þær, og ef þær hefðu ekki verið fáanlegar, mundi jeg hafa greitt atkvæði á móti frv. Nú vænti jeg þess, að þær verði samþyktar, og tel jeg þá málinu sæmilega vel borgið. Að jeg skrifaði undir með fyrirvara kom til af því, að mjer þótti nál. nokkuð óákveðið, og á einum stað jafnvel ekki alveg rjett orðað. Það stendur nefnilega í því, að nefndinni hafi þótt það ákvæði í frv. ofóákveðið, að skólinn skyldi standa við Eyjafjörð, en í 2. gr. er allljós skýring yfir þetta, þar sem það er ákveðið, að heimavistirnar skuli vera 24, en gert ráð fyrir, að nemendurnir verði 50. Þetta bendir á, hvað háttv. Ed. hefir hugsað sjer í málinu, hvað skólastaðinn snertir; á því geta ekki verið nein tvímæli. Á þessu hefir verið gerð breyting í frv., sem horfir mjög til bóta. Þar er svo ákveðið, að heimavistir skuli vera fyrir 40 stúlkur, í stað 24, eða með öðrum orðum, að kenslupláss verði að eins fyrir 10 stúlkur, auk þeirra, sem geta notið heimavistar, og er þá miðað við það, að skólinn verði í svo miklu þjettbýli, að 10 stúlkur geti sótt hann, án þess að hafa heimavist. Síðar í nefndarál. virðist fremur vera vikið að því að hafa skólann sem allra næst eða rjett við Akureyri, enda þótt hann eigi að hafa jörð og búskapur sje rekinn í sambandi við hann. Um þetta, hvort skólinn skuli settur á Akureyri eða í sveit, hefir staðið mjög mikil deila heima í hjeraði, og hefði jeg því álitið fara betur á því, að nefndið hefði ákveðið enn ljósar um þetta atriði, og slitið þar með allri þeirri þrætu, sem er um skólastaðinn. Eins og frv. kom frá háttv. Ed. mátti ætla, að þar með væri lokið þessari þrætu, því að samkvæmt frv. átti skólinn auðsjáanlega að standa á Akureyri, en eftir nál. hlýtur skólinn að vísu að standa í sveit, en hve nálægt Akureyri er með öllu óákveðið. Hvort skólinn skuli standa í sveit eða á Akureyri er einmitt aðalástæðan fyrir þeirri deilu, sem staðið hefir, og er hún þannig til komin í fyrstu, að allmargar konur á Akureyri fóru fyrir nær 2 árum síðan að safna undirskriftum undir áskorun um að fá húsmæðraskóla á Akureyri, og fengu fjölda undirskrifta, og þá ekki síst fjölda kvenna þar í bænum. En nú í vetur hófst hinn flokkurinn handa og leitaði undirskrifta um að fá skólann í sveit, og hafa þær gengið þannig, að nær 100 konur fleiri standa nú á þeim listum en kvennanna á Akureyri. Við þetta er það einnig að athuga, að sennilega engin af þeim, sem skrifað hafa undir að fá skólann í sveit, mundu sætta sig við, að hann verði á Akureyri, en hins vegar getur vel hugsast, að margar af þeim konum, sem skrifað hafa undir, að hann yrði á Akureyri, mundu engu síður hafa kosið, að skólinn stæði í sveit, því að þá var mjög lítið um skólastofnun talað úti í sveit, en þó hafa nokkrar skrifað undir með þeirri athugasemd, að þær óski hans fremur þar. En nefndinni er nokkur vorkunn, að hún tók það ekki skýrt fram, hvar skólinn ætti að standa, af því að ekki lá neitt fyrir um jarðnæði, sem fáanlegt væri. En jeg hygg, að meiri hluti nefndarinnar væri fús á að ákveða staðinn, ef jörðin væri þegar vís. Annars hygg jeg, að skólasetur, þar sem rekinn yrði búskapur, fáist ekki heppilegt nema í nokkurri fjarlægð frá Akureyri, og eru það þá sjerstaklega 2 jarðir, sem menn hafa í huga, en hvor þeirra sem væri er þó í svo mikilli fjarlægð, að ekki mundi tiltækilegt að hafa heimangöngur þangað frá Akureyri, en hins vegar mjög hægir aðflutningar frá Akureyri, sem auðvitað verður að teljast eitt höfuðatriðið í þessu máli.

Þessa vildi jeg að eins láta getið, til skýringar því, hvers vegna jeg skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara. Því að eftir orðalaginu mætti það skiljast svo, sem skólinn yrði að vera rjett við Akureyri, sem ekki var frekar meining nefndarinnar heldur í grendinni, þar sem hagkvæmust jörð fengist til góðs sveitabúskapar.