07.09.1917
Neðri deild: 54. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (1783)

54. mál, húsmæðraskóli á Norðurlandi

Matthías Ólafsson:

Jeg hefi hugsað mjer að koma með brtt. til 3. umræðu við brtt. nefndarinnar, þess efnis, að heimavistirnar í húsmæðraskólanum verði færri en nefndin leggur til. Það liggur í hlutarins eðli, að því fleiri sem heimavistirnar eru, þess dýrari verður skólinn. Eftir nál. að dæma, ætti skólinn að standa svo langt frá Akureyri, að stúlkur þaðan geti ekki haft heimangöngur, og mjer virðist brtt. nefndarinnar aðallega ganga í þá átt að bægja stúlkum, sem heima eiga á Akureyri, frá að sækja skólann. En ef hann ætti að standa svo langt frá Akureyri, að stúlkur þaðan gætu ekki haft heimangöngur, þá hefði þurft að gera ráð fyrir stærri skóla en nál. gerir. Ef ekki eru nema 50 nemendur, virðist óþarft að hafa heimavistirnar 40, því að mjer finst, að þá væri alveg nóg að hafa þær 30, og mun jeg koma með brtt. í þá átt við 3. umr.

Hvað brtt. nefndarinnar snertir, þá líka mjer þær vel að því leyti, að þar er ákveðnar tekið fram, að skólinn skuli standa nálægt Akureyri, en var í frv., eins og það kom frá háttv. Ed., því að þá stóð bara í því einhversstaðar í Eyjafirði. Það er á hvers manns vitorði, að skólinn á að standa mjög nálægt Akureyri, því að þar er betri aðgangur að kenslukröftum og öðrum hlunnindum, og auk þess betri markaður, ef bú er haft. Hann verður að vera svo nálægt bænum, sem hægt er, vegna grasnytjar. Jeg tel það vel farið, að nefndin hefir ákveðið þetta, því að þessi skóli ætti ekki að vera leiksoppur fyrir kapp á milli fólks þar fyrir norðan. Jeg óska málinu alls hins besta, því að jeg tel þetta mjög mikið þarfamál.