07.09.1917
Neðri deild: 54. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1836 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

54. mál, húsmæðraskóli á Norðurlandi

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg get verið stuttorður, því að jeg ætla að eins að segja nokkur orð út af fyrirvara hv. 1. þm. Eyf. (St. St.). Hann taldi nál. óákveðið, en það er alveg eins og nefndin ætlaði því að vera. Nefndin leggur áherslu á, að skólinn sje þar, sem landsfjórðungurinn á hægast með að njóta hans, og þá verður að taka tillit til Akureyrar, sem hefir um 2000 íbúa. Stúlkum þaðan verður að gera sem hægast fyrir að sækja skólann, án þess að öðrum sje með því gerður bagi. Enn fremur vill nefndin, að skólinn fái kennara í heilsufræði, efnafræði o. fl., sem verður að vera stundakennari, því að það er hæpið, að hann hefði annars sjerfræðing í þessum greinum. Þetta stendur alt í nál., og jeg vil leggja áherslu á það, að nefndin ætlast til, að þessu verði hagað eins og gert er ráð fyrir í nál. Nefndin hefir ekki ákveðið stað fyrir skólann, en hún hefir markað honum hring umhverfis Akureyri. Hvað heimavistum viðvíkur, þá vakti það fyrir nefndinni, að skólahúsið yrði ekki gert ónýtt í upphafi með því að hafa það oflítið, en engin ályktun um það, hvar skólinn ætti að standa. Nefndin meinti ekkert annað en það, sem í nál. stendur, og neitar því þess vegna, að út úr því eigi að draga nokkra ályktun öðrum hvorum keppinautnum í vil. Hún leggur að eins áherslu á það, að hvar sem skólinn verði settur, þá verði fyrst og fremst hugsað um það, að hann geti fullnægt sem best þörfum landsfjórðungsins, sem á að njóta hans.