10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

54. mál, húsmæðraskóli á Norðurlandi

Matthías Ólafsson:

Á þgskj. 853 hefi jeg leyft mjer að koma með brtt. við frv. þetta, og fer hún fram á að fækka heimavistum í skólanum. Ástæðan fyrir þessu er sú, að ef skólinn yrði bygður svo nærri Akureyri, að stúlkur gætu gengið heiman að frá sjer í hann, þá tel jeg ósanngjarnt að neyða þær til að búa í skólanum og hafa þar fulla heimavist, og enn ósanngjarnara er þetta, þegar á það er litið, að konur á Akureyri vilja leggja svo mikið í sölurnar til að fá skólann í grend við sig, og skylda á hjeraðið að leggja allmikið fje fram til að koma skólanum upp. Svo er þess og að gæta, að við þessa fækkun heimavistanna verður töluvert ódýrara að byggja skólann, og rekstur hans nokkru ódýrari líka. Vona jeg því, að þessi till. mín fái svo góðan byr, að hún verði samþ.

Ef það verður aftur á móti ofan á, að skólinn verði settur svo fjarri Akureyri, að eigi verði hægt að ganga þangað daglega í hann, þá verður aftur á móti að líkindum að fjölga heimavistunum fram úr því, sem ráðgert er í frv., því að þá verða þær að vera jafnmargar eins og námsstúlkurnar.

Sumir halda því fram, að skólinn eigi að vera fullkominn heimavistarskóli, svo að hann geti orðið sem líkastur heimili. En það á hann að geta orðið, þótt nokkrar stúlkur búi utan hans; meiri hluti þeirra mun þó búa í honum, og eiga ásamt kenslukonunum að geta skapað þar fullkomið heimilislíf.