10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1844 í B-deild Alþingistíðinda. (1791)

54. mál, húsmæðraskóli á Norðurlandi

Matthías Ólafsson:

Ef frv. hefði verið orðað á líkan hátt og háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) vildi, hefði mjer aldrei komið til hugar að koma fram með brtt. mína. En jeg get ekki skilið nefndarálitið öðruvísi en að skólinn eigi að standa svo nálægt Akureyri, að stúlkur þaðan geti gengið í hann. Úr því að tiltekið er, að skólinn eigi að vera í grend við Akureyri, verður það ekki skilið á annan veg en þann, að þaðan verði fengnir kennarar. Það virðist ekki vera til mikils mælst, þótt gert sje ráð fyrir því, að ? af nemendunum verði frá Akureyri, því að ef Akureyringum á að vera gert ómögulegt að ganga í skólann heiman að frá sjer, hefði hann eins vel mátt standa úti á Látrum, og þá hefði verið sjálfsagt að hafa hann heimavistaskóla að öllu leyti. Jeg ætla ekki að fara að deila við hv. þm. S.-Þ. (P. J.) um það, hvort heppilegt sje að hafa skólann í sveit, þar sem hann getur ekki orðið fyrir neinum áhrifum frá bæ. Jeg hefi aldrei verið í þeim flokki, sem álítur bæi okkar hafa svo spillandi áhrif, að það borgi sig ekki að hafa skólann svo nálægt bænum, að hann geti notið þeirra hlunninda, sem það veitir, bæði að því er snertir kenslu og annað. Jeg verð að halda því fast fram, að skólinn eigi að standa svo nálægt Akureyri, að hann geti notið af því hlunninda, en ef hann á að vera í sveit og stúlkur frá Akureyri útilokaðar frá að hafa heimangöngur í hann, þá er alveg meiningarlaust að hafa ekki eintómar heimavistir.