10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

54. mál, húsmæðraskóli á Norðurlandi

Sigurður Stefánsson:

Jeg vona, að háttv. þm. Dala. (B. J.) og aðrir misvirði það ekki við mig, þótt jeg fari nú fáeinum orðum um mál þetta á síðasta stigi þess, en jeg hefi ekki átt kost á því fyr, því að við 2. umr. var jeg ekki búinn að átta mig á því. Jeg verð að taka undir með háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), að jeg sje ekki, að með þessu frv. sje verulega orðið við ósk Norðlendinga í þessu máli. Það virðist svo mikill tvískinnungur í frv., að engir, sem hjer eiga hlut að máli, geti orðið ánægðir með það, þótt samþykt verði. Það er í þessu frv. verið að reyna að synda milli skers báru, milli kaupstaðar og sveita, og niðurstaðan verður sú, að skólinn skuli settur í grend við Akureyri. Vegna þessa tvískinnungs er brtt. fram komin, en jeg vil nú spyrja, hvort ekki geti orðið ágreiningur um, hvað sje í grend við Akureyri og hvað ekki. Grund í Eyjafirði er í grend við Akureyri, en þó svo langt í burtu þaðan, að ómögulegt verður að hafa þar heimangönguskóla frá Akureyri. Skólinn gæti líka verið á MöðruvöIIum í Hörgárdal, eða í Fagraskógi, eða úti á Upsaströnd, og þó verið í grend við Akureyri, því að það ákvæði er svo ákaflega óákveðið. Jeg er helst á því, að þessu máli liggi ekkert á á þessu þingi, en betra væri að athuga málið nánar og fá ákveðnar óskir frá fólki þar nyrðra. Jeg væri fúsari til að gefa þessu frv. atkvæði mitt, ef það væri skýrt tekið fram í því, að skólinn skyldi standa í sveit.

Það, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) sagði um, að stjórnin gæti notað undirbúning skólahússbyggingar til atvinnubóta fyrir Akureyringa, þá álít jeg þau orð töluð út í loftið, því að eftir því sem frv. er orðað er ómögulegt fyrir stjórnina að vita, hvar skólinn á að standa, og hvernig á hún þá að gera gangskör að því, að farið verði að draga að byggingarefni? (G. Sv.: Til Akureyrar). Já, en hvar í grend við Akureyri á skólinn þá að standa? Á Grund eða úti á Árskógströnd? Háttv. þm. Dala. (B. J.) tók það fram, að það væri óheppilegt að fella frv. nú og koma svo með það aftur inn á næsta þing, en eftir því, sem þetta mál hefir gengið, það sem af er, get jeg vel búist við þeim veðrabrigðum á Norðurlandi, að það yrði að gera ýmsar breytingar á þessum lögum þegar á næsta þingi.

Það var tekið fram af hv. þm. Dala. (B. J.) hjer um daginn, í sambandi við tillögu um rannsókn fræðslumála, að það bæri að sameina sem mest, að unt væri, kenslu karla og kvenna. Þetta er alveg rjett. En væri þá ekki rjett að athuga, hvort ekki gæti komið til mála að setja inn sjerstök námsskeið í hússtjórnar- og húsmóðurstörfum, t. d. við búnaðarskólana, og fresta sjerstökum húsmæðraskólastofnunum, þangað til að fræðslumálin verða öll tekin til gagngerðrar endurskoðunar, og spara með því allmikið fje? Enda býst jeg ekki við, að þeir kvennaskólar, sem nú eru til á landinu, verði lagðir niður, þótt þessi skóli yrði stofnaður; tel

t. d. líklegt, að Húnvetningar vilji halda í sinn kvennaskóla, þrátt fyrir þessa skólastofnun í grend við Akureyri.

Mjer sýnist ekki neitt vera unnið með þessu frv., og jeg er sem sagt alveg á sama máli og hv. 1. þm. Árn. (S. S.) um, að það sje engu spilt, þótt þetta frv. nái ekki fram að ganga á þessu þingi. Enda er frv. svo úr garði gert, að mjer sýnist ekki vera mögulegt að ganga að því. Sum ákvæði í því benda til þess, að skólinn skuli settur uppi í sveit, t. d. það ákvæði, að reka skuli búskap í sambandi við skólann. Það yrði nú líklega örðugt, eins og tekið hefir verið fram, að fá bújörð í náinni grend við Akureyri.

Jeg sem sagt sje ekki, að málið sje neitt undirbúið, og vil ekki láta samþ. frv.