10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1850 í B-deild Alþingistíðinda. (1796)

54. mál, húsmæðraskóli á Norðurlandi

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Það hefir mikið verið um það rætt, hverju ætti að ná með því að setja skólann í sveit. Ætli það eigi ekki að ná því, að húsmæðurnar kunni að hegða sjer á sveitaheimilum, kunni að hagtæra þeim mat, sem þar er farið með? En hvað þarf skólinn að hafa til þess, að hægt sje að ná því takmarki? Það þarf ekkert annað til þess en að reka búskap í sambandi við skólann, búskap, sem rekinn sje eins og annar sveitabúskapur. Háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) vill, að skólinn efli sveitamenninguna. Jeg skal síst af öllu hnjóða í sveitamenninguna, en jeg held, að hún ekki verði efld með skólum. Það er hætt við því, að þegar forstöðukonan hefir siglt og verið utanlands í nokkur ár, til þess að búa sig undir að stjórna þessum skóla, þá muni fara svo, að hún hafi upplitast, sveitamenningin hjá henni, og gerum nú ráð fyrir, að hún væri uppalin í kaupstað, þá yrði líklega nokkuð lítið úr sveitamenningunni. Jeg get sagt háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) það, að hann eflir best sveitamenninguna með því að kenna börnum sínum að elska og virða okkar fornu menningu. Það eru einmitt skólarnir, sjerstaklega þessir ónýtu barnaskólar, sem eyðileggja alla sanna menningu.

Jeg sný mjer þá að háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Jeg skal ekki álasa honum fyrir það, þótt hann taki undir með háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). Sú ánægja kemur honum sjálfum mest í koll. En það, sem hann sagði um það, að tvískinnungur væri í frv., var rangt. Það ákvæði, að skólinn skuli vera í grend við Akureyri, er enginn tvískinnungur. Það þýðir ekki annað en það, að skólinn skuli vera svo nálægt Akureyri, að hægt sje fyrir stúlkur þaðan að nota skólann sem heimangönguskóla. Hins vegar skiftir það engu máli, hvort skólinn er 5 eða 10 stikuþúsundir frá bænum. (E. A.: Þm. á víst við hundstikur). Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) veit það vel, að þótt jeg eigi hjer við háttv. hundvísa þingmenn, þá ber mjer engin skylda til að mæla þá í hundstikum. Það nær ekki nokkurri átt, að þingið fari að ákveða einhvern vissan stað fyrir skólann. Þingið á ekki annað að gera en að afmarka hringinn og segja: í þessum hring skal skólinn standa; ákveðið þið nú sjálfir, hvar í honum; og jeg er ekki í neinum vafa um, að stjórninni verður það ekki að vandræðum að ákveða staðinn, í sambandi við Norðlendinga.

Það, sem háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) var að tala um samnám karla og kvenna í sambandi við þennan skóla, nær ekki nokkurri átt, því að hjer er ekki um annað að ræða en sjernám fyrir konur. Þetta er sjerfræði, sem karlar þurfa ekki að nema. Þess vegna skyldi mig ekki undra það, þótt Húnvetningar vildu halda sínum skóla, því að hann kemur þessu máli ekkert við. Sá skóli er ekki húsmæðraskóli.

Hvað því viðvíkur, að ekki sje hægt að fá jörð fyrir skólann í grend við Akureyri, þá er það talað út í loftið, því að Akureyri á nógar jarðir, sem hún getur látið skólann hafa. Það er sömuleiðis talað út í loftið að halda því fram, að ekki sje hægt að hefja undirbúninginn undir verkið af því, að menn komi sjer aldrei saman um, hvar skólinn skuli standa. Stjórnin þarf ekki annað en segja við sýslunefndirnar: Nú verðið þið að koma ykkur saman um staðinn; verkið verður ekki hafið fyr en þið hafið gert það. Þá mun varla standa á svarinu.