06.08.1917
Efri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1855 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

63. mál, bæjarstjórn á Akureyri

Frsm. (Magnús Torfason):

Þetta frv. er komið fram að tilhlutun meiri hluta bæjarstjórnarinnar á Akureyri, og hefir háttv. þm. Ak. (M. K.) átt tal við nefndina um breytingarnar, sem hún vill gera á frv. Breytingar þessar fara í þá átt, að fleiru verði breytt í lögunum en til var ætlast í fyrstu. Þótti nefndinni rjett að taka upp það ákvæði, að numin væru úr gildi lög nr. 43, 11. júlí 1911, vegna þess ákvæðis í frv., að gefa megi út lögin í heild með konungsúrskurði. Í samræmi við þetta varð einnig að breyta innganginum.

Þá hefir nefndin tekið upp nýja grein í frv., um það, að bæjarstjórn rjeði hafnarmálum, samkvæmt hafnarlögum. Þar sem hafnarlögin eru til, þótti rjett að taka þetta ákvæði upp í sjálf bæjarstjórnarlögin, eins og gert er í lögunum um bæjarstjórn á Ísafirði.

Aðrar breytingar eru ekki annað en smáorðabreytingar, sem til bóta þóttu horfa.

Þá vil jeg geta þess, að eftir að nefndarálitið var samið og farið frá allsherjarnefndinni, kom skjal frá nokkrum bæjarbúum á Akureyri með óskir um, að öðruvísi yrði gengið frá lagabreytingum þessum.

Munu óskir þessar verða teknar til athugunar, af allsherjarnefndinni fyrir 3. umr. málsins.