14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

2. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Fjármálaráðherra (B. K.):

Áður en jeg tala um einstakar brtt., sem háttv. fjárhagsnefnd hefir komið fram með, vildi jeg skýra nokkur atriði, sem gætu ef til vill orðið til þess að hjálpa háttv. þingm. til að átta sig betur á hverjum einstökum lið, áður en þeir greiða atkvæði. Fyrsta atriðið, sem jeg vildi leyfa mjer að vekja athygli á, er það, að fjárlög eru tvenns konar, eða fjalla um tvenns konar fjárveitingar. Í fyrsta lagi fastákveðnar upphæðir, sem stjórnin er bundin við að fylgja og má aldrei fara fram yfir, og í öðru lagi áætlaðar upphæðir, sem ekki er hægt að fastákveða fyrir þá sök, að ómögulegt er að sjá það nákvæmlega fyrirfram, hve mikið þarf að brúka. T. d. er ekki hægt að fastákveða það fyrirfram, hve mikil kol þarf handa geðveikrahælinu eða holdsveikraspítalanum, og ekki heldur hægt að reikna kolaverðið út, þegar fjárlögin eru samin. Þingið getur því ekki annað en áætlað einhverja upphæð, sem reynslan hefir sýnt að muni láta nærri sanni. Stjórnin hlýtur svo að hafa fullkomið vald til að fara fram úr þessum upphæðum, þar sem þess þarf með. Henni er sagt að greiða þessa upphæð í þessum tilgangi, og þótt kostnaðurinn verði meiri, þá verður ekki hjá því komist að greiða það, sem fram yfir er. Stofnanir, sem starfa eftir ákveðnum lögum og í ákveðnum tilgangi, verða að starfa jafnt fyrir það, þótt þingið hitti ekki á þá rjettu upphæð, sem stofnunin þarf á að halda. Löglega sjeð er það því rjettmætt að greiða það, sem fer fram úr áætluðum upphæðum, og á því þarf ekki að leita aukafjárveitingar eftir á. Þetta byggist á skoðun bestu lögfræðinga, og get jeg, máli mínu til stuðnings, vitnað til ræðu, sem Kristján háyfirdómari Jónsson, þáverandi ráðherra, hjelt í þinginu 1911. Jeg ætla að leyfa mjer að lesa upp nokkur orð úr þessari ræðu, sem eru svo skýr og ákveðin, að ekki er hægt á þeim að villast. Hann komst þannig að orði:

». . . Þegar lög fyrirskipa einhverja greiðslu og upphæðin til greiðslunnar er sett eftir ágiskun, eða er áætluð, þá hlýtur stjórninni að vera bæði heimilt og skylt að inna greiðsluna af hendi, án þess að leita samþykkis þingsins til hennar á eftir í fjáraukalögum. Jeg sje því ekki, eins og jeg þegar hefi tekið fram, að hjer sje um annað að ræða en að leggja óþarfa ómak á þing og stjórn, sem vel má komast hjá....« (Alþt. 1911, B. II. 670).

Þetta er hans álit, og á því er óhætt að byggja.

Annað atriðið, sem jeg vildi benda á, er það, að fjárhagstímabilið er 2 ár. Þótt stjórnin verji meiri upphæð til einhvers annað árið en fjárlögin áætla til þess það árið, þá er henni það heimilt, ef hún fer ekki fram úr þeirri upphæð, sem til þessa er ætluð bæði árin. Jeg vil biðja háttv. þm. að taka vel eftir þessu. Það er oft nauðsynlegt fyrir stjórnina að taka mikið af fjárveitingunni annað árið, til þess að koma því í framkvæmd, sem gera á. Þetta rekur maður sig á, þegar kemur að athugasemdunum við brtt. nefndarinnar.

Þá er loks 3. atriðið, sem jeg vildi minnast á, það, að stjórninni var ekki unt að taka tillit til athugasemda yfirskoðunarmanna fyrir árið 1915. Þær komu ekki til stjórnarinnar fyr en í júní, en þá var stjórnin búin að ganga frá fjáraukalagafrumvarpinu og senda það til Kaupmannahafnar.

Þessum þremur atriðum vildi jeg biðja þingmenn að veita athygli. Það er nauðsynlegt að átta sig á þeim, áður en kemur að sjálfum athugasemdunum, því að málið er svo flókið, að það þyrfti að öðrum kosti margar bækur til að geta skilið það, sem nefndin hefir út á frv. að setja. Jeg vil því biðja menn að fylgjast vel með tillögunum, um leið og jeg kem að hverjum lið fyrir sig.

2. brtt. er um alþingiskostnaðinn. — Nefndin er búin að taka hana aftur, svo að jeg þarf ekkert um hana að segja.

3. brtt. er um spítalana. Jeg er búinn að sýna fram á, að stofnanir verða að ganga, þótt áætlaðar upphæðir nægi ekki til rekstrar þeirra. Sú umframgreiðsla, sem hjer ræðir um, stafar af því, að allar nauðsynjar stigu í verði. Jeg held mjer við það, að þessar upphæðir þurfi ekki að koma í fjáraukalög, og það er í samræmi við skýringu Kristjáns Jónssonar, sem jeg mintist á áðan. Samt geri jeg þetta ekki að kappsmáli. Jeg get látið mjer standa á sama, þótt það verði tekið inn í lögin, en finst hins vegar ástæðulaust að gefa tvær lagaheimildir fyrir sömu upphæðinni.

4. brtt. er við 4. gr.

a. Þegar menn hafa heyrt röksemdir mínar viðvíkjandi öðrum liðum þessarar brtt., munu menn komast að þeirri niðurstöðu, að aðaltalan er röng.

b. Þessar 400 kr. eru ekki umframveiting. Í fjárlögunum voru veittar til húsaleigu fyrir bögglapóststofu 2000 kr. hvort árið = kr. 4000 00

Greiddar 1914 2400,00

1915 963 97

— 3363 97

Sparast á fjárhagstímabilinu kr. 636 03

Því fer svo fjarri, að nokkur ástæða sje til að leita hjer aukafjárveitingar, þar sem kr. 636,03 hafa sparast af því fje, sem áætlað var. 4. brtt. b. er því ástæðulaus.

d. Umframgreiðsla við pósthúsbygginguna 1915. Það er viðurkent af stjórninni í svari nr. 50, á bls. 131 í LR, að upphæð þessa eigi að taka inn í fjáraukalögin. En frumvarpið var þá komið til Hafnar, svo að stjórnin gat ekki leiðrjett þetta. Það varð því að gerast í þinginu. Brtt. 4. d. er því rjett.

e. Er líklega rjett. Af sömu ástæðu gat stjórnin ekki heldur leiðrjett þetta, en hafði beðið um, að það yrði leiðrjett í svari nr. 65 við athugasemdir yfirskoðunarmanna landsreikninganna 1915.

f. Er ástæðulaus. Umfraragreiðslan

var 1915 kr. 13,90

1914 var sparað — 2,85

Mismunur kr. 11,05

Meira gat ekki komið til mála að leita aukafjárveitingar fyrir. Liðurinn er því alveg rjettur í frv., en aths. nefndarinnar ástæðulaus.

g. Er líka röng. 1914 var

umframgreiðslan kr. 660,71

1915 sparaðist — 647,00

Mismunur kr. 13,71

Athugasemd nefndarinnar er því ástæðulaus og brtt. 4. g. á ekki að taka til greina.

5. b. Þessi upphæð, kr. 129,85, stendur í fjáraukalögunum í einum lið, en á að standa í tveimur liðum, þannig:

1914 kr. 0,85

1915 — 129,00

Í handritinu er þetta rjett, en hefir auðsjáanlega skekst í prentsmiðjunni. Fyrirsögnin fyrir 85 hefir fallið burt, en neðri línunni verið skotið upp, svo að talan 85 hefir skeyst aftan við kr. 129. Upphæðinni átti því ekki að breyta, en athugasemdin er rjett.

d. Er einnig rjett. Stjórnin hefir kannast við það og beðið endurskoðendur að sjá um, að upphæðin væri tekin upp í fjáraukalögin. Sbr. svar nr. 104, 1915.

e. Er ártalsskekkja, og er rjett. Hjer er auðvitað um prentvillu að ræða.

f. Er ástæðulaus. Til eftirlitsferða var veitt

bæði árin kr. 1200,00

Þar af var goldið 1914 kr. 646,83

1915 — 526,30 — 1173,13

Sparað kr. 26,87

Ef að eins er litið á árið 1914, þá virðist vera ofgoldið fyrir það ár, en

sje 1915 tekið með, kemur það í ljós, að af þessari fjárveitingu hefir orðið afgangur. Brtt. er því ástæðulaus.

g. Er líka ástæðulaus. Í fjárlögunum eru veittar 14000 kr. og hafa líka verið greiddar 14000 kr. Hjer er því ekki um neina umframborgun að ræða. En af þessu fje hafa verið greiddar 200 kr. til unglingaskóla á Akureyri. Endurskoðendur hafa gert athugasemd við þetta, og telja það ólöglegt. Það getur ef til vill verið rjett að vita þessa fjárgreiðslu, en aukafjárveiting getur ekki komið til greina, úr því að eigi var farið fram úr áætlaðri fjárupphæð. Það er alt annað, hvort endurskoðendum finst ástæða til að gera athugasemd við meðferð fjárins, eða hvort á aukafjárveitingu þarf að halda.

Að endingu skal jeg taka það fram, að síðasta brtt. nefndarinnar, 6. b, er rjett.

Þá þykist jeg hafa svarað hverri brtt. nefndarinnar fyrir sig, og vona jeg, að jeg hafi svarað svo skýrt, að háttv. þm. hafi getað áttað sig á, hvernig þeir eigi að greiða atkv. Til gleggra yfirlits skal jeg telja upp þær brtt., sem ekki eru rjettar, og því ber ekki að samþykkja. Þær eru: 1. a, 4. a, 4. b, 4. f, 4. g, 5. f, og 5. g. Eftir verða þá 6 brtt. nefndarinnar, sem eru rjettar; þar af hefir stjórnin sjálf beðið nefndina að leiðrjetta 4, en 2 hefir nefndin fundið sjálf, og er jeg henni þakklátur fyrir þær; þar af er þó 85 aura skekkjan önnur, sem jeg drap á áðan. Með þessu vona jeg þá, að nál. sje svarað.

Jeg skal loks geta þess um brtt. á þgskj. 430, að mjer láðist að gæta þess, að 2. liðurinn átti einnig að falla burt, en háttv. fjárhagsnefnd hefir nú gert brtt. um að fella báða liðina burt, og tek jeg því mína brtt. aftur, en vona, að brtt. nefndarinnar verði samþykt.