23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1874 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

66. mál, gjöld til holræsa og gangstétta á Akureyri

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Hv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) sagði, að jeg mundi vera móti till. vegna þess, að jeg mundi vera lítt kunnugur þar eystra. Jeg skal játa, að svo er, en jeg hafði þó kunnuga menn fyrir mjer, því að málið var búið að ganga gegnum háttv. Ed., og þar á sæti, sem kunnugt er, þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) og fleiri, sem jeg býst við að sjeu kunnugir á Austfjörðum, og auk þess eru ýmsir hjer í háttv. þingd., sem eru kunnugir þar. Undir þessa menn hefi jeg borið málið, og allir eru þeir sammála um, að ekki sje fremur ástæða til að taka þetta umboð en öll önnur umboð á landinu. (Þorst. J.: Enginn þeirra hefir borið á móti uppýsingum mínum). Mjer er fjarri skapi að fara að gera þetta að nokkru kappsmáli, en jeg býst við, að háttv. þingdm. sjái, að ekki er ástæða til að gera Múlasýslu að sjerstöku umboði, fremur en ýmsar aðrar sýslur. Þær ástæður, sem háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) bar fram, hafa ekki sannfært mig, en að svo stöddu sje jeg ekki ástæðu til að eyða lengri tíma í að ræða þetta mál.