21.07.1917
Efri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

82. mál, skipun prestakalla

Flm. (Halldór Steinsson):

Jeg þarf ekki að skýra öllu nánar þetta frv. en gert er í ástæðunum fyrir því. Í lögunum um skipun prestakalla frá 16. nóv. 1907 kemur fram svo mikill ójöfnuður í skipun prestakalla í Snæfellsnessýslu, að furðu gegnir, og ef samræmi hefði átt að vera, hefði með jafnmiklum rjetti mátt leggja niður 2 önnur prestaköll í prófastsdæminu, en það þótti ekki fært vegna víðáttu, sem er með öllu rjett, enda þarf ekki annað en að líta á Íslandskort, til þess að sjá, að Staðastaðarprestakall verður eitt hið stærsta prestakall landsins, eftir núgildandi lögum.

Jeg held, satt að segja, að áhugi manna á trúmálum hjer á landi sje ekki ofmikill, og ekki verður hann meiri með því að gera prestaköllin svo stór, að presturinn geti ekki haft nein veruleg kynni af sóknarbörnum sínum. Meðan þjóðkirkja er ríkjandi hjer á landi er það skylda þings og stjórnar að sjá um, að starf hennar verði meira en kákið tómt, en það verður það með því að gera prestaköllin svo stór, að prestum sje lítt kleift að þjóna þeim.

Þetta frv. fer fram á, að prestakallaskipunin haldist eins og hún nú er, að undanteknu því, að skilja Hellnasókn frá Nesþingum og sameina hana Staðastað. Hellnasókn er nú í Nesþingum og liggur sunnan Jökuls. Hún er áföst Staðastaðarprestakalli, og er þar að eins um bygð og góða vegi að ræða, og eru litlir erfiðleikar á því fyrir Staðastaðarprest að þjóna þessari sókn, en presturinn frá Ólafsvík hefir yfir 2 fjallvegi að fara þangað.

Jeg flyt frv. þetta samkvæmt almennum endurteknum óskum hjeraðsbúa í þessum sóknum og samkvæmt einróma áliti á nýafstaðinni prestastefnu (synodus). Jeg hefi og í höndum brjef frá herra Jóni Helgasyni, biskupi, þessu máli viðkomandi, og skal jeg með leyfi hæstv. forseta lesa það upp. Það hljóðar svo:

»Reykjavik, 3. júlí 1917.

Á nýafstaðinni prestastefnu (synodus) var svo hljóðandi tillaga borin upp:

Að gefnu tilefni lætur prestastefnan þá skoðun sína í ljós, að mjög óheppilegt sje, að Miklaholtsprestakall í Snæfellsnessprófastsdæmi verði lagt niður sem sjerstakt prestakall, og mælir mjög með því, að gerð verði sú breyting á gildandi lögum, að það skuli haldast sem sjerstakt prestakall.

Var tillaga þessi samþ. í e. hlj.

Jón Helgason.

Til prófastsins

í Snæfellsnessprófastsdæmi.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meir um þetta mál; vona jeg, að það fái að ganga til 2. umr. Rjettara virðist mjer að setja þetta mál í nefnd, og vil jeg þá stinga upp á, að því verði vísað til allsherjarnefndar.