10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

82. mál, skipun prestakalla

Pjetur Þórðarson:

Jeg er þakklátur háttv. nefnd fyrir það, hvernig hún hefir tekið í mál þetta. Jeg er samþykkur því, sem háttv. frsm. (E. J.) hefir sagt um ástæðuna fyrir því, að mál þetta er komið fram, og um hina brýnu þörf á því, að það fái framgang. En þess ber sjerstaklega að gæta, að lögin um skipun þessa prestakalls hafa staðið alllengi án þess að hafa komist í framkvæmd, og á þeim tíma hafa augu margra opnast enn betur fyrir því, hve óhæfileg samsteypan er í raun rjettri, og hafa aðrar samsteypur, sem farið hafa fram á þessum tíma, fært mönnum heim sanninn um það. Þetta sýnist mæla mjög með því, að breytingin sje samþykt.

Jeg segi þetta af því, að mjer þykir anda kalt gegn frv. frá hæstv. forsætisráðherra og háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.); þeir leggja báðir móti því af þeirri einni ástæðu, að fjölga á prestaköllum. En líklegt er, að svo vitrir menn sjái, að mistök hafi getað orðið á skipun prestakallanna frá upphafi, og hafi það nokkursstaðar orðið, þá er það hjer; um það blandast kunnugum ekki hugur. Þrátt fyrir andmælin vona jeg, að háttv. deild leyfi málinu að ganga fram.