14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

2. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Jeg ætla að eins að segja örfá orð, því að jeg tel ekki nauðsyn á að halda áfram umræðum öllu lengur. Jeg þykist þess viss, að háttv. þingdm. muni orðnir nokkurn veginn vissir um, hvernig málinu horfir við, og að ekki muni þurfa að skýra það betur fyrir þeim.

Í raun rjettri er nú svo komið, að hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) hefir stórum lægt seglin, og hefir nú ekki á móti, að það sje samþykt sem rjett, sem hann telur rangt.

Það er ekki rjett, að umframgreiðslur sjeu jafnan veittar tvisvar, ef þær voru teknar upp í fjáraukalög; hvað segir hann, hæstv. ráðherra (B. K.), um það, ef umframgreiðslur verða bæði árin á upphæðum einhverra liða í fjárlögunum? Er hann ófáanlegur til þess að viðurkenna, að þar verði og beri að leita samþykkis? Og í raun og veru er langrjettast að taka í fjáraukalög, þótt umframgreiðsla hafi ekki orðið nema annað árið og jafnast upp hitt árið, því að það árið, sem umframgreiðslan var, hefir verið notað meira fje en fjárlög heimiluðu.

Allar stjórnir fram að þessu hafa talið sjer skylt að leita aukafjárveitinga á slíkum fjárgreiðslum sem þeim, er fjárhagsnefnd fer fram á að leitað sje, og orðið fegnar að mega það og þakklátar fyrir leiðrjettingar. Ef stjórn og þing vill hafa alt í sukki, þá er sjálfsagt að láta alt reka á reiðanum og hirða ekki um að fylgja neinni fastri reglu, heldur láta það vera komið undir handahófsáliti stjórnarinnar, hvað henni þóknast að taka í fjáraukalög í það og það sinn. En eina rjetta reglan er auðvitað, að allar umframgreiðslur komi fram í fjáraukalögum, og við það hefir nefndin miðað tillögur sínar. Fyrir því hefir hún lagt til, að allar umframgreiðslur til spítalanna t. d. bæði árin komi í fjáraukalög, en yfirskoðunarmenn ekki nema að litlu leyti fyrra árið, en að öllu leyti síðara árið. Kom þar fram ósamræmi hjá þeim, sem lagast, ef till. nefndarinnar er fylgt. Getur verið, að þessi stjórn vilji ekki fylgja þeirri reglu, sem nefndin telur rjetta vera. Undanfarandi stjórnir hafa þó gert það, og annarsstaðar er það venja að gera það og sjálfsagt talið.