31.08.1917
Neðri deild: 48. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (1944)

106. mál, breyting á tilskipun og fátækralögum

Gísli Sveinsson:

Jeg skal ekki fjölyrða um þetta mál. Að eins vil jeg geta þess, að hvort sem háttv. nefnd felst á brtt. eða ekki, get jeg ekki betur sjeð en að hvorttveggja sje mikil bót á þeirri löggjöf, sem nú eigum vjer við að búa. Jeg hefi aldrei getað sjeð, að neitt væri unnið við það fyrir sveitarfjelag eða hrepp að halda þeim ákvæðum, sem nú gilda. Jeg held, að það sje misskilningur, eða eitthvað annað, hjá háttv. þm. Mýra. (P. Þ.), ef hann heldur, að þessi ákvæði verndi sveitarfjelögin fyrir ágangi óhlutvandra presta eða annara manna, er vilja velta byrði af sjer á þau. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að ef skuldin er að eins greidd af hjónaefnunum eða fyrir þau, hvort sem hún er mikil eða lítil, áður en hjónavígslan fer fram, þá er ekkert til fyrirstöðu, en sje skuldin ekki greidd, fellur byrðin, sem leiða kann af hjónabandinu, að sjálfsögðu á sama hátt á þann hrepp, sem hún á að falla á, og getur hann þá fundið sig illa haldinn. Í löggjöfinni er skilningur og framkvæmd þessara ákvæða harla einkennileg. Hafa mörgum fundist þau ákvæði næsta óbilgjörn og ekki mega við hlíta. Þetta eru að vísu gömul lög, miðuð við aðra tíma, og nú með öllu úrelt, og býst jeg við, að það verði ekki sannað eða sýnt, að þau geri neitt gagn. Miklu fremur er það, eins og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) tók fram, að hreppsfjelögum hefir orðið ógagn að. Þau hafa flækst út í meira og minna vanhugsuð málaferli, sem bakað hafa þeim einatt kostnað og ergelsi og annað ekki. Og svo er ástatt um háttv. þm. Mýra. (P. Þ.), að hann, eða hans hreppur, þykist eiga um sárt að binda, því að svo vill óheppilega til, að hann er nýbúinn að tapa máli við hjeraðsrjett og yfirdóm út af líkum sökum. En það kemur líka út á eitt fyrir þann hrepp, því að háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) getur ekki neitað því, að ef presturinn hefði vitað um »skuldina« og látið greiða hana að eins áður en hjónavígsla fór fram, stæði hreppurinn að mestu eins og nú.

Jeg myndi geta látið mjer nægja frv., eins og það kom frá háttv. Ed., en því get jeg ekki neitað, að það yrði róttækara, ef brtt. yrðu samþ. Mun jeg því gefa þeim samþykki mitt, og verði þær ekki samþ., mun jeg greiða frv. atkv., því að jeg tel það til mikilla bóta. Nú heyri jeg, að nefndin ætlar að glugga ofan í málið á ný, og má þá álíta, að orðið geti jöfnuður úr.