04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í B-deild Alþingistíðinda. (1946)

106. mál, breyting á tilskipun og fátækralögum

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Jeg tók það fram áður við þessa umræðu, að mentamálanefndin hefði fallist á breytingar þær á núgildandi lögum um þetta efni, sem frv. fer fram á. Jeg skýrði þá einnig frá þeim breytingum, sem frv. gerir á tilskipuninni frá 1824, er kveður á um ábyrgð fyrir að gefa saman hjón, er standa í sveitarskuld, og ætla ekki að fara frekar út í það mál.

Þá komu fram brtt. frá háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), á þgskj. 720, og gat jeg ekki að því sinni greint frá um afstöðu nefndarinnar til þeirra brtt. Nú hefir nefndin athugað þær og viðurkennir, að með þeim er gengið enn lengra í mannúðar- og sanngirnisáttina heldur en með frv., og felst því nefndin í einu hljóði á breytingarnar. Flm. að þessum brtt. (E. A.) skýrði þær mjög ljóslega hjer áður við umr., svo að jeg sje ekki ástæðu til að fara að gera grein fyrir þeim nú, nema ef mótmæli koma fram, sem þá má ske þurfi að svara.