06.09.1917
Neðri deild: 53. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (1948)

106. mál, breyting á tilskipun og fátækralögum

Pjetur Þórðarson:

Jeg verð að gera þá játningu, að mjer koma undarlega fyrir sjónir þær sveiflur, sem hv. þm. hafa á meðferð mála hjer í deildinni, og svo er það nú, um hina skyndilegu gerbreytingu á þessu frv., sem hjer er til umræðu, og hefir þó ekki farið fram venjuleg útlistun á jafngerbreyttu efni. Þótt frv. sje fyrirferðarlítið, þá eru þó ákvæði þess ekki ómerkileg, eins og jeg gat um við 2. umr., sem sje að nema burt jafnsjálfsagða hindrun, sem nú er í vegi fyrir því að stofna hjónaband, þótt sameiginlegur vilji hjónaefna sje fyrir hendi, og jafnvel án þess, þegar annaðhvort þeirra hefir þegið sveitarstyrk, sem þá er ekki endurgoldinn. Í slíkum tilfellum er oft gripið inn í hag annara manna. Þetta getur orðið ósanngjarnt og mesta ranglæti, og jeg álít, að þetta geti haft mikil áhrif á almenna framfærsluskyldu, og virðist mjer þá ekki kominn tími til þess, sem frv. þetta ákveður, nema ef samtímis væri þá komið betri skipun á almenna framfærsluskyldu, eða fátækralögin endurskoðuð í heild sinni. Jeg segi þetta ekki vegna þess, að jeg búist við að hefta framgang málsins, heldur til þess, að það gangi ekki fram alveg þegjandi og hljóðalaust. Fyrir mjer vakir það, að jeg vil ekki alveg láta það hlutlaust, að bundinn sje endir á hindrun slíkra hjónabanda og skyldur presta í þessu efni, og engu skeytt, hver áhrif frv. hefir á almenna framfærsluskyldu.

Það er vitanlegt, að þegar svo stendur á, að þess er girnst á báðar hliðar að ganga í hjónaband og framfærendur brúðgumans samþykkja, þá veit jeg ekki til, að það sje venja að koma í veg fyrir það, jafnvel þó að svo sje fyrir mælt í 62. gr. fátækralaganna, að það þá skuli æ hindrast. Hitt mun vera öllu tíðara, að stofnað sje til hjónabands án slíks samþykkis, ef svo stendur á, að með því er hægt að koma framfærslu þeirra, sem hlut eiga að máli, yfir á annað sveitarfjelag. Jeg býst nú við, að þessu verði svarað með því, eins og hv. flutnm. brtt. (E. A.) tók fram, að þetta muni alt jafna sig. Það kann nú svo að vera, en þó álít jeg, að dálítið tillit beri að taka til þess, hvar byrðin kemur niður.

Það getur verið, að hitt sje ekki skaði fyrir landið í heild sinni, hvaðan sem styrkurinn kemur. En það ber að athuga, að þessi byrði getur komið æði misjafnt niður. Jeg man ekki, hvort jeg nefndi dæmi þessa við 2. umr. En það er kunnugt, að þess eru mörg dæmi, að með því að stuðla að slíkum hjónaböndum hafa menn velt byrði ómaklega af sjer og yfir á annað sveitarfjelag. Að vísu mun þetta oft hafa verið lagfært, samkvæmt þeim lagaákvæðum, sem nú gilda, en þó ekki nærri altaf.

Mjer fanst jeg geta ekki annað en sýnt fram á það, að hjer kemur fram misrjetti. Um leið og þetta frv. á að gefa öðrum aukin rjettindi, þá skapar það misrjetti í garð ýmsra annara. Jeg býst þó ekki við, að þessi orð mín valdi því, að þetta mál nái ekki fram að ganga, því að jeg þykist viss um, að frv. verði samþ., eftir þeim undirtektum að dæma, sem það fekk hjer við 2. umr.

En það hefir enginn gert neitt til að sýna fram á, að þetta, sem vakir fyrir mjer, hafi ekki við rök að styðjast. Enda hygg jeg, að það sje ekki hægt.