14.09.1917
Efri deild: 57. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1922 í B-deild Alþingistíðinda. (1955)

106. mál, breyting á tilskipun og fátækralögum

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Eins og jeg tók fram síðast er mál þetta var á dagskrá, þá er þetta í raun og veru alt annað frv. en fór hjeðan til Nd. Frv. var um ábyrgð fyrir að gefa saman hjón. Það fór fram á, að prestur væri laus allra mála, þó að honum hefði orðið það á að gefa saman hjón, er stæðu í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk, ef hann gyldi skuldina. Frv. gekk breytingalaust gegnum þessa háttv. deild. Hjeðan fór það til mentamálanefndar Nd., og hún lagði það til einróma, að frv. yrði samþykt. En í Nd. koma brtt. við frv. frá einstökum mönnum, er voru samþyktar, og ollu því, að nú lítur það þannig út.

Nú hefir frv. alt annað nafn og efni en það hafði áður. Og meiri hluti nefndarinnar lítur svo á, að það sje talsvert mikilsvert og varhugavert atriði að nema það ákvæði úr gildi, að leyfilegt sje að gefa saman hjón, hvort sem þau skuldi þeginn sveitarstyrk, þegar þau ganga í hjónabandið, eða ekki.

En enginn tími hefir verið til fyrir nefndina að athuga mál þetta nokkuð verulega. Hefir hún að eins haft einn fund um það, enda ekki nema 3 dagar síðan það kom sem hamskiftingur frá háttv. Nd.

Meiri hluti nefndarinnar leyfir sjer því að leggja til, að því verði vísað til stjórnarinnar.