14.09.1917
Efri deild: 57. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1924 í B-deild Alþingistíðinda. (1957)

106. mál, breyting á tilskipun og fátækralögum

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg get ekki kannast við, að þetta sje rjett ummæli hjá 1. þm. Rang. (E. P.), nefnilega að þetta sje sama mál. Jeg kalla, að það hafi verið nokkuð annað að ákveða, hvað það ætti að kosta að brjóta gildandi lög hjer, 10. lið tilskipunar 30. apríl 1824 og 62. gr. fátækralaganna, eða nema lögin úr gildi. Það er nokkuð annað að ákveða, hvaða viðurlag skuli vera við að brjóta lögin, eða að nema lögin sjálf úr gildi.

Þá sagði sami háttv. þm. (E. P.), að það væri engin hætta á ferðum, þótt frv. væri samþykt. Það getur vel verið, en það er ekki hægt að hafa á móti því, að þingið hefir mjög lítið athugað þetta mál; finst mjer það óviðkunnanlegt, þar sem um fátækralöggjöfina er að ræða, sem er eitt af okkar mikilsverðustu málum; en þetta frv. snertir hana mikið.

Út í barneignir vil jeg sem minst fara, því að jeg verð að játa, að þetta frv. muni engin áhrif hafa hvað þær snertir, en hitt finst mjer ekki nema sjálfsagt, ef persónur vilja giftast, að þær hugsi svo mikið um sinn hag eins og það, að vera ekki í sveitarskuld þegar þau ætla að fara að stofna hjúskap og búskap, heldur reyna að líta dálítið í kringum sig, til þess að vita, hvort þau geti ekki verið sjálfbjarga. Og þótt þetta mál ætti að ganga gegnum báðar deildir á næsta þingi og útilokaði eitthvert nýtt og óhugsað frumvarp, þá teldi jeg það ekkert illa farið. Jeg álít miklu betra, að það komi aftur, heldur en að það verði nú látið ganga í gegn í flýti og alveg óhugsað og án þess að kjósendum gefist kostur á að láta uppi álit sitt á því. Jeg held, að það sje skoðun, sem ekki sje hægt að hafa á móti, að líklegt sje, að frv. verði betur athuguð ef þau ganga í gegnum tvær þingdeildir heldur en eina, hvað helst ef það líka er á öðrum tíma og annaminni en síðustu daga þingsins.