14.09.1917
Efri deild: 57. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (1958)

106. mál, breyting á tilskipun og fátækralögum

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi því miður ekki getað verið fyr við umræðu þessa máls, og veit því ekki, hvað hefir verið talað um það, en mjer hefir skilist, að háttv. frsm.

(G. Ó.) vildi láta málið bíða.

Mjer finst þetta mál svo einfalt, að ekki þurfi að taka langan tíma að athuga það, og hefi frá því fyrsta ekki getað sjeð neina hættu, þótt frv. yrði samþykt, eins og það liggur hjer fyrir, enda býst jeg við, að háttv. deildarmenn minnist þess, að jeg taldi, þegar málið var hjer til umræðu áður, hreinlegast og rjettast að taka í burt skilyrði um þetta úr löggjöfinni. Jeg get ekki komið auga á neitt, er þessu sje til fyrirstöðu. Það hafa mörg frv. verið samþykt hjer á þinginu, sem hafa verið umfangsmeiri og flóknari en þetta frv., svo að það virðist ekki sjerstök ástæða til að láta það bíða. Málið er svo ógnarlega einfalt, að mjer sýnist varla vert að vera að vísa því til stjórnarinnar, eins og mjer hefir verið sagt að fram hafi komið. Þess vegna vil jeg leyfa mjer að mæla með því, að frv. verði samþ.