01.08.1917
Efri deild: 19. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1927 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

118. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Flm. (Guðjón Guðlaugsson):

Þetta frv. er ekki langt á pappírnum, og því styttra er það að efni til. Það er flutt eftir ósk frá Búnaðarfjelagi Íslands, og er þess getið í greinargerð frv., að Búnaðarfjelaginu hafi borist óskir víðs vegar að um kaup á ýmsum dýrum landbúnaðarverkfærum til ýmsra tilrauna. En til framkvæmda þessara vantaði Búnaðarfjelagið fje. Sum verkfæri þessi eru stór og geta því kostað jafnvel tugi þúsunda króna, og var því enginn vegur til að ráðast í slík kaup, án þess að fá hækkaðan styrk frá þinginu. Búnaðarfjelagið þarf líka aukinn styrk til ýmsra framkvæmda og þar að auki til dýrtíðaruppbótar fyrir starfsmenn sína, í svipuðum mæli og landssjóður veitir sínum starfsmönnum. Þess vegna sá Búnaðarfjelagið sjer ekki fært að biðja um aukinn styrk til þessara verkfærakaupa. En til þess nú að fullnægja óskum þessum að einhverju leyti, og um leið spara sitt eigið fje, því að ekki þótti ráðlegt að taka af stofnfje fjelagsins, þá komst búnaðarþingið að þeirri niðurstöðu, að rjett væri að veita fje úr Ræktunarsjóði til framkvæmda þessara. Fjárveiting þessi heyrir nú ekki undir neitt af því, sem heimilað er í lögunum frá 20. okt. 1905, og var það því tilætlun búnaðarþingsins, að lögum þessum yrði breytt og fjeð tekið af því, sem áður hefir verið veitt til ýmsra manna fyrir dugnað og framfarir í jarðabótum.

Það dylst því engum, að verðlaun þessi hljóta að lækka, ef frv. þetta nær fram að ganga, en þá ber að athuga það, hvort með því sje miklu slept eða ekki. Verðlaun þessi hafa verið veitt eingöngu fyrir jarðabætur, og það að eins 5. hvert ár, venjulega ekki hærri en 50 krónur í hvern stað. Það er sama sem 10 kr. á ári. Þó hafa þessi verðlaun oft verið ofhá eftir jarðabótunum.

Jeg get nú ekki skilið það, að maður, sem einu sinni hefir áhuga á jarðabótum, letjist nokkuð fyrir það eða missi kjarkinn, þótt hann missi vonina um þessi 10 kr. verðlaun á ári.

Og búnaðarfjelagið leit svo á, að ekki mundi eins mikill skaði skeður, þótt klipið væri af verðlaunum þessum, eins og ef slept væri að gera tilraunir hjer með ýmsum nýtískuverkfærum, sem hrundið gætu af stað ýmsum stórfyrirtækjum fyr en ella.

En, eins og jeg hefi áður tekið fram, er aðalástæða frv. sú, að Búnaðarfjelagið vildi hvorki eta af sínum eigin höfuðstól nje íþyngja landssjóði.

Og eina breytingin, sem frv. gerir á lögunum frá 1905, er viðbót sú, sem stendur í 4. línu 3. málsgr. í 1. gr. frv., orðin »að styrkja Búnaðarfjelag Íslands til kaupa, tilrauna og útbreiðslu landbúnaðarverkfæra«.

Þótti Búnaðarfjelaginu rjett að taka lögin frá 20. okt. 1905 orðrjett upp í frv. og setja þar inn viðauka þennan, svo að ekki þyrfti með breytingu þessari að fjölga lögunum.

Jeg vildi skýra þetta, til þess að háttv. þm. geti sjeð, að breytingarnar, sem farið er fram á með frv. þessu, á viðaukanum frá 1905, eru ekki stórvægilegar. Þær nema nálega ¼ og ? úr línu 3. málsgr. 1. gr. þess viðauka. Og jeg vonast til, að háttv. deild sannfærist um, að hjer er farin rjett leið, og að fremur beri að styðja frv. en fella. Jeg býst við, að nefnd verði látin athuga frv. nánar, og vildi jeg þá óska, að til þess yrði valin landbúnaðarnefnd. Jeg vona, að hún svæfi eigi málið, heldur segi já eða nei sem fyrst. Jeg segi þetta í sambandi við annað mál, sem nefndin hefir haft til meðferðar og jeg hefi flutt, og ekki hefir verið gerð nein skil enn þá. En mjer þykir hart, ef þetta frv. þarf að sæta löngum drætti, með því að jeg á sjálfur sæti í nefndinni.