15.08.1917
Efri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1937 í B-deild Alþingistíðinda. (1981)

128. mál, stofnun landsbanka

Frsm. (Magnús Torfason):

Eins og tekið var fram við 1. umr. þessa máls þá höldum við flutningsmennirnir ekki fast við einstök atriði frv., en okkur lá það eitt sjerstaklega á hjarta, að bankastjórnin yrði styrkt, frá því sem nú er. Jeg lýsti því þegar yfir í framsöguræðu minni, að við mundum vera fúsir til að taka allar tillögur til greina, sem verða mættu frv. til bóta.

Eins og háttv. deild er kunnugt var ákveðið í frv., að einn bankastjórinn skyldi hafa tekið próf í lögum. En nefndinni hefir það orðið ofan á, að þetta ákvæði yrði numið burt, en með því er vitanlega ekki sagt, að nefndinni þyki ekki æskilegt, að einn bankastjóranna verði lögfræðingur. Nefndin hefir í öðru lagi fallist á, að rjett sje að afnema ekki gæslustjórana að svo stöddu. Því að þótt það sje skoðun okkar flutningsmanna, að rjett sje að afnema þá, þá höfum við þó fallist á að láta við svo búið standa að sinni, sökum þess, að hjer er að eins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, og hins vegar er bráðlega búist við gagngerðum breytingum á allri stjórn bankans. En ef þeir eiga að halda áfram að starfa við bankann, þá er það skylda þingsins að sjá um, að þeir geti gert skyldu sína og nokkurt gagn við starfa sinn. En ef þeim á að vera það unt, verða þeir að geta varið meiru af tíma sínum í þarfir bankans en hægt er að búast við að þeir geti gert fyrir þá lítilfjörlegu þóknun, sem þeim nú er ætluð. Meiri hluti nefndarinnar hefir því fallist á að hækka laun þeirra upp í 2000 kr. Þetta er í raun og veru engin hlutfallsleg hækkun frá því, sem ráð var fyrir gert í upphafi. Bankastjórinn hafði þá 2000 kr. í árslaun og gæslustjórar 500 kr., eða ¼ hluta af launum bankastjóra. Nú fer nefndin fram á, að þetta sama hlutfall verði látið halda sjer, en jeg get getið þess, að nefndin mun ekki hafa neitt á móti því að hækka launin enn meir, ef hv. þingdeildarmenn skyldu óska þess.

Í frv. er gert ráð fyrir, að bankastjórarnir hafi 8000 kr. í árslaun. Mikil nauðsyn ber til þess, að slíkir menn sjeu efnalega sjálfstæðir, og það er naumast samboðið þinginu að hafa launin minni, eftir því sem bankastjórum er launað erlendis. Annars vita allir, hve mikill skaði getur af því hlotist, ef menn í slíkum trúnaðarstöðum eru ekki fyllilega sjálfstæðir og óháðir menn.

Aðrar breytingar nefndarinnar við frv. en þær, sem jeg hefi getið um, eru eingöngu orðabreytingar, sem leiða af því, að gæslustjórunum er haldið.

Annars sje jeg ekki ástæðu til þess að fjölyrða meir um þetta að sinni, en vænti þess, að háttv. deild taki tillögum nefndarinnar vel.