15.08.1917
Efri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1939 í B-deild Alþingistíðinda. (1982)

128. mál, stofnun landsbanka

Kristinn Daníelsson:

Jeg hefi skrifað undir nefndarálitið, en geri það með fyrirvara, og þýðir það ætíð, að maður sje ekki eins óhikandi og eindreginn eins og ella og áskilji sjer alla umhugsun.

Þetta á ekki svo mjög við það, að frv. vill fjölga bankastjórunum í þrjá, því að þar sem þeir tveir, sem nú eru, eru báðir settir og verða ekki fastskipaðir menn að svo stöddu í sæti þeirra, og þar sem vænta má, að fyrir flestum vaki, að bankastjórar verði þó með tímanum þrír, þá hefi jeg getað fallist á, að föstum manni yrði nú þegar bætt við.

Þó að störfum bankans sje um sinn, að ætlun minni, borgið í höndum þeirra manna, sem nú fara með stjórn bankans, þá verða þó störfin margbrotnari, og dregur því að því, að þurfi styrkari stjórn, þó að eðlilegast hefði verið, að það yrði gert um leið og gagngerðari breytingar á lögum bankans væru undirbúnar af stjórn bankans og landsins, en stjórnin hefir ekki lagt fyrir að þessu sinni, ef til vill vegna breytinga, sem búast má við að verði á högum bankans.

En það, sem fyrirvari minn sjerstaklega sneri að, var fyrst þær brtt., sem jeg hefi komið mjer saman um við flm. og frsm. frv. (M. T.), að einungis með því, að þær nái fram að ganga, gæti jeg greitt frv. atkv. Eftir sjálfu frv. áttu gæslustjórar að falla úr sögunni. En það get jeg ekki fallist á, að þingið megi sleppa þeim tökum, sem það hefir í gæslustjóravalinu, til þess að geta haft hönd í bagga með stjórn bankans, enda hefir þingið hingað til ekki viljað sleppa því, þó að till. hafi komið um það. Með vali gæslustjóranna getur þingið og ráðandi stefnur í þinginu haft áhrif sín á stjórn bankans, og ekki er heldur annað hægt að segja en að það val hafi yfirleitt tekist vel, valdir ýmsir ágætir menn, og víst allir með meiri og minni hæfileikum og skilyrðum til starfsins. Hygg jeg þetta geta verið þýðingarmikið, og síst ástæða að sleppa þessu, þegar ef til vill gagngerðar breytingar standa fyrir dyrum.

Og annað, sem jeg líka vildi með fyrirvaranum fá tækifæri til að minnast á, var það, að úr því að breyta skyldi 4. gr. laganna 1909, hefði jeg kosið, að ákveðið hefði verið, að bankastjórn skipaði alla starfsmenn bankans, einnig bókara og fjehirði. Mjer finst það liggja svo í augum uppi, að sú stjórn, sem ber alla ábyrgð á bankanum, verði að hafa ráðin í þessu.

En þótt jeg komi nú ekki fram með brtt. um þetta, þá tel jeg þó bót í að halda því, sem nú er í lögunum, »eftir tillögum« bankastjórnar, heldur en, eins og í frv. stendur, »að fengnum tillögum«. Vil jeg leggja mikla áherslu á þann skilning í þeim orðum, að það skuli ráða, sem bankastjórnin leggur til; og geta þó falist samt í stjórnarveitingunni þeir yfirburðir yfir stöðu annara starfsmanna, sem slík stjórnarstaðfesting má veita.

Skal jeg svo ekki fjölyrða meir, en vona, að brtt. nái fram að ganga, og mun þá geta greitt frv. atkv., samkvæmt því, sem jeg hefi nú sagt.