15.08.1917
Efri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1943 í B-deild Alþingistíðinda. (1986)

128. mál, stofnun landsbanka

Halldór Steinsson:

Háttv. þm. Ak. (M. K.) gat þess í upphafi ræðu sinnar, að hann væri í vanda staddur með atkvæði sitt. En jeg vil segja fyrir mitt leyti, að jeg er í engum vafa um, hvernig jeg á að greiða atkvæði um frv., eins og það nú liggur fyrir. Jeg hefi ákveðið að greiða atkvæði gegn frv. Jeg get ekki sjeð, að í nál. sjeu færðar nægilegar ástæður fram fyrir þeim breytingum, sem frv. gerir á núgildandi lögum. Aðalástæðan fyrir frv. er sú, að, eins og stjórn bankans sje hagað nú, vanti hana nægilega festu. En jeg fæ ekki sjeð, að meiri festa fengist í stjórn hans, þó að í hana yrði bætt einum bankastjóra og laun bankastjórnarinnar yrðu hækkuð. Mjer skilst, að losið stafi af því, að bankastjórarnir eru nú báðir settir og annar gæslustjórinn. En engin sönnun er fyrir því, að bankastjórarnir verði fastskipaðir, þó að þeir verði 3.

Jeg hefði þó ef til vill getað gengið með frv., hefðu gæslustjórastöðurnar verið afnumdar. Nú síðustu árin hafa þær stundum ekki verið annað en »humbug« og pólitískir bitlingar, og er því engin eftirsjá í þeim. Alt öðru máli er að gegna um þær í upphafi, er þær voru stofnaðar. Þá gerðu gæslustjórarnir meira gagn og vörðu miklu meiri tíma til starfsins. Sje jeg ekki, að þeir muni rækja betur störf sín, þó að laun þeirra verði hækkuð. Jeg er því þeirrar skoðunar, að afnema beri gæslustjóraembættin. Það virðist nóg, að bankastjórar sjeu 3, eins og í Íslandsbanka, en engir gæslustjórar.

Jeg get fallist á að hækka laun bankastjóranna upp í 8000 kr, en get þó ekki verið samþykkur þeirri ástæðu, sem hv. frsm. (M. T.) tók fram, að sómi landsins lægi við, og að þeir, þótt þeir væru efnalega sjálfstæðir, mundu verða að því skapi andlega sjálfstæðir.