15.08.1917
Efri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (1988)

128. mál, stofnun landsbanka

Eggert Pálsson:

Þegar litið er á frv. og nál. og breytingar þær, sem farið er fram á að gerðar verði á stjórn bankans frá því, sem nú hefir verið um hríð, þá verður fyrst fyrir mönnum sú breytingin, að bankastjórarnir skuli vera 3, í stað 2, og laun hvers þeirra 8000 kr. Sú hækkun á útgjöldum til stjórnar bankans nemur þessum upphæðum: 8000 kr., sem eru laun hins nýja bankastjóra, og 2000 kr. launaviðbót til hinna tveggja, eða alls 12000 kr. Svo eiga laun hvors gæslustjóra að hækka um 1000 kr., og verður þá allur útgjaldaaukinn til stjórnar bankans 14000 kr. á ári, eða helmingi hærri en stjórnin kostar nú. Nú mætti ætla, þegar gert er ráð fyrir svo mikilli hækkun, að mikið fáist í aðra hönd. En hvaða hagnaður er þá í boði? Sá einn, að fá einn mann til viðbótar í bankastjórnina. Jeg játa, að mikið væri fengið, ef bankinn öðlaðist þá festu, sem haldið hefir verið fram af háttv. flm. (M. T.) að honum veittist með þessu. En í frv. er ekkert ákvæði, er gefur neina tryggingu í þessa átt. Háttv. frsm. (M. T.) hjelt því fram, að ástandið væri óhafandi eins og það er nú, þar sem báðir bankastjórarnir og annar gæslustjóranna væru settir menn. En engin trygging er fyrir því, að ekki geti eins farið með 3. bankastjórann. Ekkert ákvæði fyrirfinst í þessu frv., fremur en í núgildandi lögum, er slái varnagla við því, að bankastjórar geti tekið við öðrum stöðum, sem þeim finnast betri, eða hentugra þykir að setja þá í. Þó að þessi breyting yrði samþykt, gæti þess vegna svo farið, að allir 3 bankastjórarnir væru skipaðir í aðrar stöður og settir menn skipuðu sæti þeirra allra. Breytingin eða bæturnar eru þess vegna, frá mínu sjónarmiði, engan veginn svo miklar, að þær sjeu kaupandi fyrir 14000 kr. árleg útgjöld.