15.08.1917
Efri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1948 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

128. mál, stofnun landsbanka

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg vil í örfáum orðum gera grein fyrir atkv. mínu. Jeg greiddi atkv. gegn frv. við 1. umr., og síðan hefir sannfæring mín ekki breyst. Jeg sje, í fyrsta lagi, ekki nauðsyn á því að skipa 3 bankastjóra, í stað tveggja. Hefði jeg álitið heppilegra, að bankastjórar væru að eins 2, með bankaráði sjer við hlið; þó ætti það að vera skipað öðruvísi en bankaráð Íslandsbanka. Í öðru lagi sje jeg ekki, að þetta komi í veg fyrir, að bankastjórnin geti eigi verið sett eftir sem áður. Og í þriðja lagi er launaspursmálið. Jeg get ekki felt mig við að fjölga bankastjórunum og hækka þar að auki laun þeirra, sem nú eru, um 2000 kr. á ári. Jeg get skilið, að þetta sje nauðsynlegt, ef hækkunin er tekin í sambandi við kringumstæðurnar og litið er á hana sem dýrtíðaruppbót. En með því að stofna stöðu með launum, er miðuð eru við dýrtíðina, er slegið föstu launahæð embættismanna, þegar dýrtíðinni ljettir. Það kemur ekki til mála að lækka launin síðar, og er þá óhjákvæmilegt, að aðrir embættismenn fái samsvarandi laun. Hjer liggur fyrir þinginu frv. um skiftingu bæjarfógetaembættisins í Reykjavík. Þar eru undirdómara ætluð 5000 kr. laun, er hækki upp í 6000 kr. En hvaða laun hafa yfirdómararnir í landsyfirdómnum? Þeir hafa 3500 kr. árslaun. Geta nú ekki allir sjeð, að er menn stofna dómaraembætti með launum, sem miðuð eru við dýrtíðina og eru hærri en laun yfirdómaranna, þá verður jafnframt að hækka laun þeirra. Yfirdómararnir ættu þá að hafa lík laun og bankastjórar. Mjer finst óheppilegt að ákveða laun yfir höfuð á þessu þingi, og því óheppilegra að mynda embætti, er skapa fordæmi hvað laun snertir. En svo kemur till. um að halda gæslustjórunum eftir sem áður og hækka laun þeirra úr 1000 kr. upp í 2000 kr. Menn vilja hafa 5 manna stjórn við þessa »stór«-stofnun. Alt þetta finst mjer fara í eina átt, að þetta valdi talsverðum ósparnaði, og sje jeg ekki neina nauðsyn á því. Jeg held því fast við fyrri skoðun mína, jafnvel þótt frv. geti haft ýmislegt gott við sig að öðru leyti.