24.08.1917
Efri deild: 38. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1950 í B-deild Alþingistíðinda. (1998)

128. mál, stofnun landsbanka

En þá rekur að þessari spurningu:

Getum vjer búist við, að þetta haldist í sama horfinu framvegis? Nei, þess er engin von.

Nú rofar fyrir fyrirtækjum, sem þurfa meira fje en vjer getum gert oss nokkra von um að eiga ráð á. Og það er víst, að til þeirra verður að nota mestmegnis erlent fje. Það er þess vegna engum vafa bundið, að erlent fje muni sækja að oss frekar en nokkru sinni áður. En vjer ættum að hafa fengið næga reynslu þess, að þær viðjarnar hafa reyrt oss fastast, sem bundnar hafa verið með erlendu auðmagni, og hitt er jafnvíst, að þessum nýju fyrirtækjum fylgja þær viðjar, sem örðugast mun reynast að smeygja af sjer. Þess vegna eigum vjer fyrir höndum harðari baráttu við erlent auðvald en vjer höfum nokkurn tíma átt áður.

Aðalhlutverk Landsbankans hlýtur því að verða það að vera þar á verði og styrkja af alefli alla innlenda atvinnuvegi og þjóðþrifastofnanir. Það er lífsskilyrði þess, að vjer fáum haldið efnalegu sjálfstæði voru.

En þó að vjer vitum, að Landsbankinn geti gert mikið í þessu efni, ef rjettilega er á haldið, þá er hann þó ekki einhlítur. Vjer verðum líka að njóta aðstoðar hins bankans.

En til þess, að það geti orðið, þarf nána og góða samvinnu milli bankanna. Og get jeg ekki sjeð neitt þessari samvinnu til fyrirstöðu.

Hjer vantar tilfinnanlega fje, og bankarnir hafa meir en nóg við fje sitt að gera, svo að hagsmunir þeirra þurfi ekki að rekast á og ættu ekki að rekast á. Mig furðar á, að þessi samvinna skuli ekki vera á komin. En til þess liggja sjálfsagt gömul mein, sem nú ættu að vera gróin.

Þegar við flutningsmenn þessa frv. fórum fram á að auka starfskrafta bankans, þá vakti það fyrst og fremst fyrir okkur að gera bankann færari til þess að afla sjer nægilegs starfsfjár og koma á góðri samvinnu milli bankanna. Og við teljum það brýna skyldu þingsins að láta einkis ófreistað í þessu efni.

Annars hefir eigi verið laust við, að talsvert dauðablóð hafi verið í bankanum. Viljum við veita þangað nýju lífsblóði, er geti streymt út um allan þjóðlíkamann, út á ystu annes og inn í instu afdali. Þá fyrst er bankinn kominn í það horf, sem hann á að vera í, til þess að geta gegnt skyldu sinni og ætlunarverki.