24.08.1917
Efri deild: 38. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1955 í B-deild Alþingistíðinda. (2001)

128. mál, stofnun landsbanka

Magnús Kristjánsson:

Jeg hefi borið fram brtt., á þgskj. 502, í fullu samræmi við þá skoðun, er jeg ljet í ljós við 1. umr. málsins. Þá lýsti jeg yfir því, að frv. hefði ýmsa galla, eins og það var í sinni upphaflegu mynd, sem yllu því, að jeg gæti eigi greitt því atkvæði mitt. Sömuleiðis lýsti jeg yfir því, er málið var til 2. umr., að brtt. nefndarinnar væru ekki aðgengilegar. Að vísu hafði þá verið bætt úr sumum göllunum, sem upphaflega voru á frv. En það hafði samt svo stóra agnúa, að þeir gerðu það algerlega óaðgengilegt í mínum augum. Og jeg held, að fleiri en jeg hafi litið svo á málið.

Jeg vildi spyrja háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.), hvaða leið mundi fær til þess að bæta úr annmörkunum á frv., önnur en sú að koma fram með brtt. Því að það er rangt til getið hjá honum, að brtt. mínar miði að því einu að fella brtt. nefndarinnar. Aðalmarkmið mitt með þeim er að bæta úr göllum frv.

Þá sagði háttv. þm. (K. D.) þá ástæðu fyrir frv. úr sögunni, að settir menn hefðu stjórn bankans á hendi, þar sem sá tæki nú við stjórn bankans, sem hefði haft hana áður á hendi. En þetta er ekki nema hálfur sannleikur. Þó að þessi maður taki nú aftur við stjórninni, þá er þó hinn bankastjórinn settur. Þessi ástæða er þess vegna ekki fullgild.

Jeg skal svo ekki svara háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) fleiru.

Þá sný jeg mjer að háttv. flm., þm. Ísaf. (M. T.).

Hann virtist mjer líta öðruvísi á málið en 2. þm. G.-K. (K. D.). Hann lýsti yfir því, að hann gæti aðhylst brtt. mínar, að einni undanskilinni, sem sje þeirri, sem ræðir um launahækkun bankastjóranna. Jeg þarf þess vegna ekki að svara honum, með því að jeg get fallist á ræðu hans í aðalatriðunum. En launahæð bankastjóranna er heldur ekkert aðalatriði fyrir mjer, og mun jeg ekki gera hana að deiluefni.

Það er annað, sem komið hefir fram í þessu máli og sjerstaklega í ræðu hv. 2. þm. G.-K. (K. D.), að ekki sje þörf að gera breytingu á stjórnarfyrirkomulagi bankans, sem jeg vildi minnast á. Jeg er þar á gagnstæðri skoðun. Jeg álít brýna nauðsyn að bæta nú stjórnarfyrirkomulagið í bankanum. Jeg býst við, að allir geti sjeð, að það ástand, sem átt gat við fyrir 30 — 40 árum, að einn maður stjórni störfum bankans, geti ekki átt við nú. Breytingin og vöxturinn á veltu bankans eru ofstórfengleg til þess.

Nú munu menn ef til vill segja, að úr þessu hafi verið bætt árið 1909, er bætt var við öðrum bankastjóranum. En þá breytingu álít jeg misstig. Úr því að breyting var þá gerð á stjórn bankans, þá hefði að rjettu lagi átt að bæta við tveim bankastjórum, svo að þeir yrðu þrír samtals. Og jeg skal reyna að sýna fram á, á hverju jeg byggi þessa skoðun.

Jeg býst við, að flestir verði mjer sammála um, að þar sem um sameiginleg stjórnarstörf er að ræða, sje það viðurkend regla, að tala stjórnendanna sje ekki jöfn tala, heldur eigi hún að standa á stöku. Því að þegar þarf að ráða fram úr vandamálum, er óheppilegt, að stjórnendurnir geti skifst í jafna flokka. En þetta getur auðveldlega komið fyrir, þar sem um tvo jafnrjettháa stjórnendur er að ræða. Þetta getur valdið óþægindum og tálmunum fyrir þá sjálfa og viðskiftamenn bankans. Það getur tafið tímann, og þó óvíst, að viðskiftamaðurinn fái nokkra úrlausn á máli sínu.

Nú mun mjer verða svarað, að úr þessum annmarka sje bætt með gæslustjóranum. En það er ekki rjett. Hjer ber alt að sama brunni. Gæslustjórarnir eru tveir, og þó að þeirri reglu sje framfylgt, að sá þeirra, sem eldri er í stöðunni, hafi úrskurðarvald, þá verður samt ekki sneitt hjá óþægindum, sem af jöfnu tölunni geta leitt. Gæslustjórarnir eru ekki skyldir til að starfa nema lítinn tíma dagsins. Á þeim tíma, sem þeir eru ekki í bankanum, getur borið að höndum eitthvert vafamál, sem þarf að úrskurða. En svo getur farið, að ekki náist til gæslustjórans, sem úrskurðarvaldið hefir. En þótt hann náist, þá gæti staðið svo á, að annar bankastjórinn og hinn gæslustjórinn væru á sama máli, og yrðu þá tveir á móti tveimur; annar bankastjórinn og annar gæslustjórinn rjeðu þá úrslitum, en hinir tveir yrðu alveg rjettlausir. Þetta er nægilegt til þess að sýna, að fullkomin ástæða er til þess að breyta stjórnarfyrirkomulagi bankans.

Jeg ætla mjer ekki að rekja þetta mál svo nákvæmlega, sem háttv. 2. þm. G.-K.

(K. D.) gaf tilefni til. Jeg skal ekki heldur fjölyrða um brtt. mínar. Þær eru svo ljósar, að jeg þykist vita, að háttv. þingdeildarmenn sjái, hvert þær stefna.

1. brtt., um afnám gæslustjóranna, er bein afleiðing af fyrirkomulaginu, sem stungið er upp á í frv. Hitt, að einn bankastjóranna skuli hafa leyst af hendi próf í lögfræði, er nauðsynlegt að mínu áliti og sjálfsagt. Það er mikill ávinningur í því að hafa löglærðan mann við slíka stofnun, enda beinlínis peningasparnaður að því, því að gera má ráð fyrir, að annars þyrfti bankinn að hafa aukamann, sem væri lögfræðingur, sjer til aðstoðar, er mundi hátt upp í það eins kaupdýr og bankastjóri.

Þá er 2. brtt. a., um skipun fjehirðis og bókara. Í nefndarálitinu stendur, að þeir skuli skipaðir »eftir tillögum bankastjórnar«. Þetta ákvæði þykir mjer binda ofmjög landsstjórnina. Því að ef hún á að hafa vald til þess að skipa fjehirði og bókara, verður það harla lítils virði, ef hún á að vera rígbundin við tillögur bankastjórnarinnar.

Þá er b-liður brtt., sem er bein afleiðing af 1. brtt.

Um 3. brtt. a., að fyrir 8000 komi 6000, er þegar talað, og atkvæðagreiðslan verður að skera úr því atriði.

Síðari liður þessarar brtt. er bein afleiðing af 1. brtt., um afnám gæslustjóranna.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en vænti, að ekki verði deilt um þær stórvægilegu og nauðsynlegu umbótatilraunir á stjórnarfyrirkomulagi bankans, sem hjer er farið fram á.