05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (2011)

128. mál, stofnun landsbanka

Björn Kristjánsson:

Enda þótt jeg viti, að það sje að tala við hann Tóm að tala um þetta mál, og enda þótt mjer sje ljóst, að svo sjeu net riðin — einstakra manna net utan þings og innan — að það þurfi meira en meðalþingmann til að smjúga í gegnum þau, þá leyfi jeg mjer samt að fara nokkrum orðum um málið, því til skýringar.

Jeg var ekki við, þegar málið kom til 1. umr. hjer í deildinni, svo að jeg verð að biðja hæstv. forseta afsökunar á því, að jeg tala nokkuð alment um málið, en held mjer ekki fast við einstök atriði frv. eða brtt. þær, sem fyrir liggja. En jeg skal reyna að vera eins stuttorður og mjer er unt.

Á Alþingi 1915 var borið fram frv. hjer um bil samhljóða þessu. Það frv. var afgreitt með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

»Í trausti þess, að landsstjórnin rannsaki það, hvert gagn mætti af því verða, að reyndur bankamaður og fjármálamaður yrði fenginn til þess að athuga peningamál landsins, þar á meðal skipulag Landsbankans, og gera tillögur um endurbætur á því, ef þurfa þykir, svo og á hvern hátt útvegaður verði markaður fyrir íslensk verðbrjef og bankanum komið í viðskiftasamband við erlendar peningastofnanir, og enn fremur að landsstjórnin geri þær ráðstafanir í þessu efni, er hún telur þörf á, og leggi fyrir næsta Alþingi tillögur sínar, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá«.

Dagskráin sýnir, að þinginu hefir þá ekki þótt þörf að fjölga bankastjórunum. Málinu var ekki vísað til stjórnarinnar í þeim tilgangi, að hún kæmi fram með þetta eða þessu líkt frv., heldur var til þess ætlast, að hún útvegaði útlendan fjármálamann til að greiða fyrir viðskiftum bankans í útlöndum og til að selja veðdeildarbrjef.

Háttv. frsm. (E. Árna.) hefir nú rakið þær ástæður, sem mæla með því að fjölga bankastjórunum. En jeg verð að segja það, að fyrst að ekki þótti ástæða til að fjölga þeim 1915, þegar verslunin var í fullum blóma, þá sje ekki mikil ástæða til að fjölga þeim nú, þegar vitanlegt er, að þing muni verða haldið næsta sumar, og að þá muni bankamálið verða tekið frá rótum, og gagngerðar breytingar gerðar á fyrirkomulagi bankans. Jeg verð líka að taka það fram, að nú er dauðaástand í bönkunum, eins og í versluninni yfirleitt. Viðskiftin mega heita dauð. Það er ekki einu sinni hægt að senda eina einustu ávísun út fyrir landssteinana, ekki svo mikið sem einn tjekk til Englands, án þess að eiga á hættu, að hann verði skotinn í kaf. Viðskiftin út á við eru, sem sagt, því nær alveg dauð. Og hvernig stendur þá á því, að þetta þing er svo bráðlátt á að fjölga mönnum í bankastjórninni? Mörgum verður að spyrja um orsökina til kappsins, sem lagt er á þetta mál nú.

Málið var borið fram af tveimur lögfræðingum í Ed. Það er eðlilegt, að sú stjett vilji reyna að koma sínum mönnum að sem víðast, og er ekkert út á það að setja. Aðalástæðan, sem þeir færðu fyrir frv., var sú, að báðir bankastjórarnir væru settir. Nú er breyting orðin á því, og annar bankastjórinn skipaður. Ef það þykir ekki nóg, þá er hægurinn hjá að kalla hinn skipaða bankastjórann, Björn Sigurðsson, heim, því að auðvitað er enginn vandi að fá mann í stað hans í Englandi. Jeg sje því ekki ástæðu til að fjölga bankastjórunum nú, fremur en 1915. Viðskiftin eru ekki svo blómleg og ekki útlit fyrir, að þau aukist að mun til næsta sumars, að minsta kosti ekki svo, að þau verði meiri en 1915. Enda fór svo í Ed., að annar lögfræðingurinn snerist á móti sínu eigin frv., þegar hann vissi, að annar skipaði bankastjórinn væri kominn í bankann. Þá fann hann, að ástæða hans fyrir frv. var horfin, og greiddi því atkvæði á móti því.

Nú hefir málið verið í nefnd hjer í deildinni, og furðar mig ekkert á þeim niðurstöðum, sem hún hefir komist að. Sjálfur form. nefndarinnar flutti frv. fram á þinginu 1915, svo að það er ekki nema eðlilegt, að hann fylgi því fram nú. Jeg hjelt því fram 1915, að þingið ætti ekki að fjölga bankastjórunum fyr en bankastjórnin æskti þess. Þingið fjellst á það með hinni rökstuddu dagskrá, að ekki ætti að fjölga fyr en einhver þörf væri á því. Og jeg veit ekki til, að neitt hafi reynst í ólagi í þessi 7 ár síðan breytingin varð, eða í tíð okkar nafna. Frv. er hvorki borið fram að undirlagi bankastjórnarinnar nje landsstjórnarinnar. En hvers vegna er það þá borið fram? Og hvers vegna er þetta kapp á það lagt að koma því í gegn? Það er ráðgátan. Og jeg er viss um, að almenningur mun vilja fá að vita, í hverju ráðgátan liggur, og sjá hana leysta.

Jeg hefi ekki svo mikið að athuga við það, að bankastjórarnir sjeu gerðir 3. Hitt þykir mjer leiðara, að lög bankans skuli vera færð svo úr lagi, að lítt mögulegt verði fyrir stjórn bankans að framkvæma stjórnarstörfin lögum samkvæmt, og að viðskifti bankans verði stórhindruð.

Þá kem jeg að 1. brtt. Eftir henni fellst jeg á það til samkomulags að lofa nýja bankastjóranum að standa, en jeg kann ekki vel við, að það sje tekið fram, að einn bankastjórinn skuli vera lögfræðingur, fyrst að ekkert er tekið fram um hina. Það er ekki af því, að jeg hafi neitt á móti lögfræðingum, en jeg kann ekki við, að það sje beint gert að skilyrði, að einn bankastjórinn sje úr þeirri stjett, en að ekkert sje tekið fram um, hverrar stjettar hinir bankastjórarnir eigi að vera. En hins vegar legg jeg til, að gæslustjórarnir fái líka að standa, þó að þessum bankastjóra verði bætt við. Jeg get ekki felt mig við, að þeim sje kipt í burt, svo að bankastjórnin verði að eins skipuð þremur mönnum, í stað fjögurra, sem nú eru. Það er fyrir þá sök, að óhugsandi er að fækka þeim, sem löglegan rjett hafa til að undirskrifa í bankanum. Það hefir stundum veist fullerfitt að ná í tvo menn úr bankastjórninni til að skrifa undir, og því erfiðara verður það, ef hún verður ekki skipuð nema þremur mönnum. Vel getur verið, að einn af þessum bankastjórum sje á ferð, eins og tekið hefir verið fram, að ætlast sje til, að bankastjórar ferðist til að selja bankavaxtabrjef

o. fl., annar getur verið veikur, og er þá ekki hægt að útbúa löglega skjöl bankans. En bankastjórnin verður altaf að vera að skrifa undir, bæði tjekka, allskonar ávísanir og brjef, sem altaf þarf að vera að senda og eru ógild eða ólögleg nema tveir úr bankastjórn undirskrifi. Auk þess verða tveir bankastjórar að undirskrifa alla víxla og önnur lán innan bankans, áður en þeir ganga til gjaldkerans. Annars má hann lögum samkvæmt ekki láta útborgun fram fara.

Jeg veit, að jeg verð þegar mintur á, að þá megi setja mann sem bankastjóra. Jú, það er að vísu úrræði, sem ætla mætti að ekki væri erfitt að grípa til. En það er nú ekki eins og að ganga inn í kaffihús að setja nýjan bankastjóra. Á því eru margháttaðir örðugleikar. Fyrst verður að tilkynna setninguna til viðskiftamanna bankans út um allan heim og senda hina nýju undirskrift. Annars er hún ekki tekin gild. Þetta verður að gera tvisvar í hvert skifti sem breyting verður á undirskriftum í bankanum. Það getur og vel verið, að tjekkur sje kominn til viðtakanda áður en tilkynningin um undirskriftina er komin fram, og gæti það orðið til skaða fyrir viðskiftin. Þess utan komast þannig inn í bankann ókunnugir menn, sem ekkert þekkja til starfanna, en komast í hvert skifti inn í heimulegheit bankans, hag almennings o. fl. Afleiðingin verður sú, að trúnaðarmál þau, sem bankastjórnin á að bera ein ábyrgð á, dreifast á óviðkomandi menn, þannig að tryggingin fyrir því, að þagnarskyldan sje uppfylt af bankastjórunum sjálfum, hverfur. Þess vegna er það vitanlegt, að þingið verður að ganga svo frá bankalögunum, að fleiri mönnum en þremur verði heimilað að skrifa undir. Annaðhvort verður að hafa fleiri en 3 bankastjóra, eða þá bankaráð, sem fengi heimild til að undirskrifa og væri þá meira en í orði kveðnu. Gæslustjóranafnið er mjer ekkert ant um. Þeir, sem undirskrifa, mega heita alt annað. En það er á þingsins ábyrgð að sjá um, að störf bankans geti gengið óhindrað, og það er á minni ábyrgð að skýra frá þessu, svo að þingmenn sjái, hvað í efni er. Þá minnist frv. ekkert á það, hvar eigi að taka borgun handa

settu bankastjórunum. Á að taka þá greiðslu af launum fjarverandi bankastjóra, eða á bankinn að greiða hana aukreitis?

Jeg gat þess, að mjer þætti óviðfeldið, að að eins skyldi tekið fram um einn bankastjórann, að hann skuli vera lögfræðingur, en engar ákveðnar kröfur gerðar til hinna, og án þess að gera nokkra aðra kröfu til þessa manns en þá, að hann hafi lokið lögfræðiprófi. Jeg geri því ráð fyrir í brtt. mínum, að það sje tekið fram, að 2 af þremur bankastjórum sjeu verslunarfróðir menn eða bankafróðir. Og til samkomulags hefi jeg lagt til, að sá 3. skuli vera lögfróður. Jeg álít, að það mundi ekki skapa það traust, sem til er ætlast, að ákveða að eins í lögum, að einn bankastjórinn sje lögfræðingur; það geri ekkert til, hverjir hinir sjeu. Jeg hygg, að það mundi vekja eftirtekt í öðrum löndum, ef það stæði í lögum Landsbankans, að einn bankastjórinn ætti að vera lögfræðingur, en engar aðrar kröfur gerðar.

Jeg hefi hvergi sjeð það tekið fram í bankalögum um víða veröld, hverrar stjettar bankastjórar eigi að vera. Það þykir svo sjálfsagt, að þeir sjeu verslunarfróðir menn og vel að sjer í bankamálum. Jeg veit ekki til, að nein ákvæði sjeu um þetta í nokkru landi, nema við Frakklandsbanka. Þar er stjórnarfyrirkomulagið þannig, að minst 5 af bankastjórunum skuli veljast úr flokki verksmiðjumanna og verslunarmanna; 3 eiga að vera embættismenn í fjármálastjórninni. — Endurskoðunarmenn geta aðrir eigi orðið en verksmiðjumenn og verslunarmenn. Þetta er eina landið, sem tekur nokkuð fram um það, hvernig eigi að velja í bankastjórastöður. Og það er gert til að tryggja það, að ávalt sje þar nóg af verslunarfróðum mönnum.

Lögfræðiprófið eitt gerir engan að hæfum bankastjóra. Það verða að vera aðrir kostir. En að sjálfsögðu er það kostur, að bankastjóri sje lögfróður.

Í Danmörku kemur það fyrir, að lögfræðingar sjeu bankastjórar, en þeir hafa þá líka gengið aðrar leiðir, verslunarleið eða hagfræðingaleið. Jeg þekki t. d. einn íslenskan lögfræðing, sem er bankastjóri, en hann hefir gengið í verslunarskóla, var síðar í mörg ár undirmaður í banka og loksins bankastjóri. (E. A : Gekk Nellemann í verslunarskóla, eða Ussing?). Jeg á ekki við það, að ekki kunni að finnast einstöku undantekningar, en hitt er reglan, og lögfræðiprófið er ekki neitt aðalskilyrði. Fyrsta skilyrðið, sem sjerhver bankastjóri verður að fullnægja, er það, að hann sje göfuglyndur maður, og því næst, að hann hafi þekkingu á verslun og sje kunnugur því, hvernig menn bjarga sjer í landinu yfirleitt.

Jeg skal þá að eins minna á, að jeg hefi tekið upp í tillögur mínar, að 2 bankastjórarnir skuli vera viðskiftafróðir menn, og svo til samkomulags, að 1 skuli vera lögfræðingur.

3. liðurinn í breytingum mínum er um það, hvernig gera skuli út um ágreining, sem kemur upp í bankastjórninni. Þetta er að efni til tekið upp úr núgildandi reglugerð bankans, og er því ekkert við þann lið að athuga.

Í 4. brtt. er lögð áhersla á það, að bankastjórnin ráði alla starfsmenn bankans. Eigi mun sá fáráðlingur til í bóndastöðu, að hann hafi það þó ekki á tilfinningunni, að hann eigi að ráða hjúin og segja þeim upp, ef honum líkar ekki við þau.

Ekki hittir maður heldur svo verslunarmann, að hann standi ekki undrandi yfir því, að bankastjórn geti eigi ráðið alla þjóna sína og vikið þeim frá. Þetta liggur í úreltu fyrirkomulagi, og það segir sig sjálft, að ekki er hægt að stjórna nema maður geti ráðið við hjú sín. Í þessum lið er líka sú breyting gerð, að bókarinn er gerður að skrifstofustjóra, eins og hann í raun og veru er nú. Hann vinnur nú alt önnur störf en lögin frá 18. sept. 1885 ætlast til. Bókararnir verða að vera 2, annar fyrir bankann, en hinn fyrir sparifjeð. Þeir verða báðir að vera skipaðir samkvæmt lögum, til þess að undirskriftir þeirra sjeu löggildar, því að svo er fyrir mælt, að bókari og gjaldkeri skuli undirskrifa sparisjóðsviðskifti öll, og að undirskriftir þeirra sjeu full sönnun fyrir greiðslum inn í og úr bankanum. Gjaldkerarnir verða líka að vera 2, annar við bankann og hinn við sparisjóðinn, til þess að afgreiðslan geti gengið óhindrað.

Þá kem jeg að launakjörunum. Þau eru sett af sjáanlegri nauðsyn fyrir bankann sjálfan.

Ef hæfileikar eiga að ráða bankastjóravalinu, þá er ekki hægt að búast við því, að fá megi hæfa menn til starfsins fyrir lægri laun.

Þá kemur ellistyrkur til starfsmanna bankans. Það hefir dregist oflengi úr hömlu, að Landsbankinn sæi starfsmönnum sínum fyrir ellistyrk, svo að þeir kæmust eigi á vonarvöl, því að allir ríkisbankar telja sjer skylt að sjá fyrir starfsmönnum sínum, og sumir veita þeim einnig hlutdeild í arðinum; t. d. ætlar Rússlandsbanki starfsmönnum sínum 10% arðinum fyrir hvert ár, Búlgaríubanki leggur til hliðar l½% til styrktar starfsmönnunum, en sá styrkur má ekki fara fram úr 25% af launum þeirra. Sænski ríkisbankinn sjer einnig fyrir starfsmönnum sínum á þann hátt, að þeir fá eftirlaun. Sama mun Finnlandsbanki gera, en ekki verður sjeð, hversu há upphæðin er í þessum 2 síðastnefndu bönkum, með því að stjórnin ráðstafar arðinum.

Þá verður fyrir ákvæðið um innskotsfje. Það er nýmæli, sem búast má við að valdið geti skoðanamun, en jeg verð að álíta, að það geti orðið til mikils hagnaðar fyrir bankann að leyfa mönnum að eiga hlutdeild í bankanum. Til varúðar er það ákvæði sett, að bankinn geti sagt upp slíku innskotsfje; það getur verið tryggilegra, t. d. ef útlendingar eiga hlutina, taka þá í arf eða t. d. upp í skuld.

Það er nú öllum kunnugt, að þetta mál er mjög seint fram borið á þinginu, eins og vant vill verða um öll samskonar mál, en þó ekki svo seint, að frv. geti ekki komið til einnar umr. í Ed., þótt brtt. mínar yrðu samþyktar. Háttv. þingmenn munu sjálfsagt hafa tekið eftir því, að öll samskonar mál koma altaf mjög seint fram á þingi, aldrei í þingbyrjun, heldur um mitt þing, þegar best gegnir, eða síðast á þingi, einmitt þegar annirnar eru mestar og þingmönnum er erfiðast um að setja sig inn í málin. Öll ógæfuspor, sem Alþingi hefir stigið öll þau 17 ár, sem jeg hefi verið þingmaður, hafa verið stigin á síðara hluta þingtímans, eða síðustu dagana, sem þingið hefir setið.

Þá skal jeg snúa mjer að háttv. frsm. (E. Árna.). Hann fór nokkuð út í söguleg atriði í ræðu sinni. Fyrst mintist hann á gæslustjórafyrirkomulagið og taldi það óeðlilegt. Það vita nú allir, hvers vegna Alþingi setti ákvæðið um gæslustjórana. Það var af því, að Alþingi ætlaðist ekki til þess, að stjórnin ein hefði á hendi skipun bankastjórnarinnar, heldur vildi þingið líka hafa hönd í bagga með, hafa eftirlit með bankanum. Ef nú gæslustjórarnir eru lagðir niður, þá er það eftirlit úr sögunni, og þá er, að minni skoðun, skipun bankastjórnarinnar komin undir að eins einum flokksráðherra. Því er það ekki rjett hjá hv. frsm. (E. Árna.), að þetta ákvæði hafi verið sett út úr neyð; ákvæðið var beint sett með þetta fyrir augum, að veita þinginu hlutdeild að nokkru leyti til þess að skipa bankastjórnina, og er þetta þannig lagað ákvæði, að hvert varkárt þing mundi hugsa sig tvisvar um, áður en það fleygði burt frá sjer slíkri heimild.

Háttv. frsm. (E. Árna.) taldi það kyrstöðufyrirkomulag að hafa 2 bankastjóra og 2 gæslustjóra. Það má vera, að svo þyki. En hverjar eru þá ástæður fyrir þeirri skoðun? Hv. frsm. (E. Árna.) taldi engar ástæður fram. Því að það var rangt hjá honum, að jafnt stæði, 2 gætu verið á móti 2 í bankastjórninni. Ef hann þekti bankalögin, mundi hann vita það, að sá hlutinn sker úr, þar sem eldri gæslustjórinn er sá fyr kosni. Það er auðvitað rjett hjá hv. frsm. (E. Árna.), að það er nokkuð undir tilviljun komið og flokksfylgi, hverjir verða gæslustjórar. En þótt svo sje, þá fæ jeg ekki sjeð, að valið hafi hingað til tekist illa, því að að sjálfsögðu velur hver flokkur þann mann til gæslustjóra, sem hann ber best traust til. Það er ekkert óeðlilegt, þótt einn stjórnmálaflokkurinn velji einn gæslustjóra og annar hinn, eftir því sem afl þeirra er á Alþingi, og með því er nokkur trygging fyrir eftirliti og hlutdeild Alþingis í skipun bankastjórnarinnar, og líkurnar meiri fyrir heppilegu vali. En þegar einn ráðherra ræður skipun allrar bankastjórnarinnar, þá er engin trygging fyrir valinu, að minni ætlun. Það er því ekki eins glæsilegt í mínum augum og í augum hv. frsm. (E. Árna.) að losna við gæslustjórana, og þess vegna langt frá því, að jeg vilji verja þessum 4000 kr. kostnaðarauka til þess að ráða þá af dögum.

Hv. frsm. (E. Árna.) sagði, að með frv. sparaðist bankanum að kaupa lögfræðilega aðstoð. En þetta er ekki rjett. Fyrst og fremst hefir bankinn ekki þurft aðstoðar lögfræðings, nema lítils háttar, og þá aðstoð hefir innheimtumaður bankans látið í tje ókeypis. Og innheimtumaðurinn mundi haldast, þótt einn bankastjórinn yrði lögfræðingur.

Hv. frsm. (E. Árna.) sagði enn fremur, að þjóðin þyrfti nú að gera meiri kröfur til bankans heldur en verið hefir hingað til. Þetta getur vel verið. En þeim kröfum verður þá ekki sint með því að fækka bankastjórunum, heldur með því að fjölga þeim, svo að þetta ákvæði getur ekki skapað festu, nema í þá átt að skrúfa bankastjórana fasta við stólinn. Og ef bankastjórarnir verða að eins 3, þá er ekki hægt að missa af þeim til ferðalaga utanlands, eins og ráð er fyrir gert. Og þótt þeir verði 3, þá skapar það ekki heldur skilyrði til þess að fjölga útibúunum; það skilyrði skapar fjármagn bankans. Í fyrra atriðinu má benda á það, að ef þeim er ætlað að ferðast utanlands nú, til þess að pressa út peninga erlendis og selja þar verðbrjef bankans, þá er það varla gerlegt nú, meðan kjörin eru svo ill, sem enn eru þau.

En um síðara atriðið er þess að gæta, að kostnaður bankans við útibúin er talsverður, og það verður þó að minsta kosti að vera sett sem takmark við stofnun útibúa, að bankinn að minsta kosti tapi ekki á þeim. En ef hv. frsm. (E. Árna.) hefði viljað fara rjetta leið, þá hefði hann ekki átt að benda á fjölgun útibúa, heldur hefði hann átt að leggja til að breyta sparisjóðslögunum í þá átt, að sparisjóðirnir yrðu gerðir að einskonar bönkum og þeim leyft að taka lán í bönkum, í stað þess að banna það.

Þá gaf háttv. frsm. (E. Árna.) í skyn, að bankastjórnin hefði vanrækt eftirlitið með útibúunum. Þetta er með öllu gripið úr lausu lofti. Bankastjórarnir hafa oft farið í eftirlitsferðir til útibúanna, en ef þeir hafa ekki getað komið því við, þá hafa þeir sent í sinn stað bestu menn bankans. Það getur verið nú upp á síðkastið, með því að samgöngur hafa verið svo örðugar, að ekki hafi verið unt að rækja eftirlitið eins og vant er og svo sem skyldi. Þó er bókari bankans alveg nýkominn úr einni slíkri eftirlitsferð.

En svo að jeg víki aftur að því atriði, að bankastjórar sjeu sendir utan til þess að selja verðbrjef, þá er um það að segja, að það getur verið mikið gott, en þá lægi næst að bæta einum bankastjóra við og láta hann sigla erlendis að staðaldri. En hitt, að láta bankastjórana skokka í snöggvar ferðir til útlanda, getur eigi talist heppilegt. Þótt bankastjórarnir sjeu vel hæfir menn, þá er ekki víst, að þeir sjeu þektir í útlöndum eða hafi þar mikið álit. Þeir geta þess vegna, þegar þeir þar koma, staðið eins og glópar og verið alveg úrræðalausir. Þess vegna er það, að jafnan eru valdir menn, sem kunnugir eru á staðnum, til þess að selja verðbrjefin. Þannig fara allar bankastofnanir að, og eru þá valdir til þess þeir menn, sem þar til teljast hæfastir og víðtækust viðskiftasambönd hafa. En þetta getur bankastjórnin gert, án þess að ferðast, enda hefir það verið gert, og um það bil sem stríðið skall á, þá var rjett komið að því, að með þessum hætti yrðu seld brjef 4. veðdeildar.

Hv. frsm. (E. Árna.) sagði og, að vegna skulda landsins þurfi að senda bankastjóra utan, til þess að útvega peninga. Hjer er alveg umsnúið því, sem nú á sjer stað, því að nú er það stjórn landsins sem útvegar bankanum peninga og traust, svo að eftir ummælum háttv. frsm. (E. Árna.) yrði að taka upp alveg nýja tilhögun um þetta.

Jeg skal nú ekki orðlengja um málið að sinni; jeg veit að það er þýðingarlaust. Jeg veit, að það er afráðið að samþykkja frv., en fella brtt. mínar, þótt þær miði eingöngu að því að styðja Landsbankann, en frv. að eins feli það í sjer að bæta við einum bankastjóra, sem engin þörf er á. Mjer hefir verið sagt ýmislegt um þetta mál, og veit jeg, að menn hafa á ýmsan hátt bundið sig við frv. Jeg kýs þá heldur, að brtt. mínar komi til atkvæða síðar, eftir svo sem 2—3 ár, en vil ekki láta greiða atkv. um þær nú, og hefi því afráðið að taka þær aftur að þessu sinni, sem jeg bið hæstv. forseta að athuga. Jeg vil ekki, hins góða málstaðar vegna, binda atkvæði þingmanna nú á móti breytingartillögunum, því að það gæti síðar orðið málinu til skaða. Deildin er því alveg sjálfráð um það, hvort hún hleður á bankann þessum 3. bankastjóra eða ekki.

Að eins vil jeg óska þess, að nafnakall fari fram um frv.