05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1996 í B-deild Alþingistíðinda. (2016)

128. mál, stofnun landsbanka

Sigurður Stefánsson:

Af því að jeg get búist við, að atkvæði mitt falli nokkuð á annan veg en alls þorra deildarmanna, og er jeg hins vegar veit, að nafnakalls hefir verið óskað um frv., þykir mjer hlýða að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni til þessa máls.

Um brtt. háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) þarf ekki að ræða, þar sem þær hafa verið teknar aftur, og get jeg því snúið mjer að frv. sjálfu, er hjer liggur fyrir.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) skýrði rjett frá afdrifum frv. í sömu átt, er stjórnin bar fram á þinginu 1915, og jeg verð að segja, að jeg taldi þá þau afdrif alveg rjettmæt. Jeg held, að það hafi verið tekið fram um það frv., að álits bankastjórnar hefði ekki verið leitað um málið. Hinu sama mun nú til að dreifa, að þetta frv. er ekki komið fram af því, að stjórn Landsbankans óskaði aukningar í stjórnina. En jeg verð að líta svo á, að þingi og stjórn beri að gæta þess að rasa ekki fyrir ráð fram um breytingar á stjórn bankans, án þess að hafa borið sig saman við þá menn, sem stöðu sinnar vegna hafa mest ráð í bankanum og jeg verð að álíta að beri meira skyn og þekkingu á málefni hans en allur þorri þingmanna, eins og við er að búast. Það er alveg sjálfsögð varúðarleið, sem stjórn og þingi er skylt að fara í þessu efni. Jeg skal fúslega játa, að jeg hefi enn minni trú á frv., er einstakir þingmenn bera fram, og oft fylgir sá halakleppur, að þau eru ekki fram komin af neinni sjerstakri umhyggju fyrir velferð og hag bankans, heldur er þar oft sá fiskur falinn undir steini, að einstakir menn eigi að njóta góðs af. Og jeg verð að játa, að þegar fregnin um frv. þetta barst vestur í sumar, var það talið víst þar, að til þess væru refarnir skornir að búa til stöðu handa vissum manni. Jeg skal ekki segja, hvort þetta er satt, en það eitt er víst, að sami orðrómur mætir manni hjer í Reykjavík, og hann er kominn út um alt land. Hvort sem orðrómur þessi er á rökum bygður eða ekki, er það leiðinlegt til afspurnar, fyrir löggjafarþing þjóðarinnar, að þingmönnum sje borið á brýn, að þeir tali hjer í þingsalnum með miklum fjálgleik og sakleysissvip um velferð þjóðarinnar og einstakra þjóðstofnana, en hin eiginlega orsök »þjóðþrifafrumvarpanna« sjeu einstakir vinir og vandamenn, sem koma þarf á framfæri. Jeg álít, að ástæðurnar til breytinga verði að vera meir knýjandi.

Jeg verð að vera á því, eins og 1915, að þær forsendur vanti fyrir þessu frv., sem allra nauðsynlegastar eru, sem eru eindregið álit, hvatning og áeggjan bankastjóranna um að gera breytingar, og þá hverjar breytingar. Það er annaðhvort, að stjórn sú, er skipar bankastjórnina, ber það traust til hennar, að hún muni ekki setja sig upp á móti breytingum til bóta á stofnuninni, eða henni tekst illa valið.

Eftir reynslunni á undanförnum þingum, fyr og síðar, verð jeg að álíta betur farið, að þing og stjórn sletti sjer sem minst fram í störf eða fyrirkomulag bankans, nema brýn nauðsyn beri til. Þjer vitið allir, góðir menn, að afskifti landsstjórnarinnar af Landsbankanum hafa oftar en einu sinni verið sannkölluð raunasaga, og það ekki síður fyrir landsstjórnina en bankastjórnina. Jeg segi þetta ekki til álass þeim heiðursmönnum, lífs eða liðnum, er í stjórn landsins hafa verið, heldur til að benda háttv. deild á, að reynslan býður þingi og stjórn að fara gætilega og án alls manngreinarálits út í þessar sakir.

Háttv. allsherjarnefnd bendir líka á í nefndarálitinu, að fyrir dyrum liggi bráðlega nauðsynleg endurskoðun á öllu fyrirkomulagi og lögum Landsbankans. Jeg býst við, að þetta sje rjett og að nefndinni sje full alvara, en þá vil jeg spyrja: Er svo bráð nauðsyn á þessu frumvarpi, án þess að bankastjórn hafi hvatt til þess, að það megi ekki bíða þar til er þær allsherjarbreytingar verða gerðar, sem háttv. allsherjarnefnd segir að liggi í loftinu? Jeg fæ ekki sjeð, að svo sje. En sá er orðinn háttur á löggjafarþingi Íslendinga, að þingmenn eru fljótir til að grípa einstök atriði út úr heild, sem þeir játa að öll þurfi endurbóta við. En jeg verð að telja það mjög óheppilega að farið að taka einstaka atriði út úr einu heildarfyrirkomulagi og breyta því, því að þá getur vel svo farið, að þetta atriði sje ekki í samræmi við alla heildina, er hún hefir öll verið endurskoðuð. Jeg skal finna orðum mínum stað að þessu leyti. Fyrir skömmu var hjer skipuð milliþinganefnd til að íhuga og gera tillögur um launamál landsins. Hefði nú mátt búast við, að þetta þing tæki till. launamálanefndarinnar til rækilegrar athugunar. En svo sje jeg hjer ýms frumvörp og tillögur um launabreytingar, sem gripnar eru út úr launakerfinu. Þessi mál eru svo velkt fram og aftur í þinginu, og eru síðan annaðhvort feld, eftir mikið umstang og umræður, eða samþykt lítt hugsuð og óundirbúin. En í þessu efni hefir þingið að vísu þær málsbætur, að stjórnin hefir ekki að þessu sinni búið launamálið í heild sinni undir meðferð þess, sem þó verður að telja tilætlun þingsins með skipun launamálanefndarinnar.

Jeg skal játa, að frá mínu sjónarmiði er Landsbankanum það fyrir langbestu, að þing og stjórn skifti sjer sem minst af störfum hans og fyrirkomulagi bankans. Segi jeg þetta af því, að jeg tel Landsbankann undanfarin ár ekki hafa haft neitt gott af þeim ráðstöfunum stjórnarinnar, er lengst hafa gengið inn á stjórn og fyrirkomulag hans. Hygg jeg, að allir þeir, er líta vilja óhlutdrægt á málið, játi þetta.

Jeg skal ekkert fara út í einstakar greinar frv., en vil taka það fram, að jeg kann ekki vel við það ákvæði í 1. gr., að einn bankastjórinn skuli vera lögfræðingur, en engin skilyrði sett um hina. Að því leyti hefði jeg felt mig betur við brtt. háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.), þótt hún sje nokkuð þröng, því að með allri virðingu fyrir lögfræðingunum vil jeg segja það, að þeir góðu menn hafa ekkert fram yfir aðra menn nema lögfræðina, og lögfræðiþekkingin ein út af fyrir sig gerir þá ekki að góðum bankamönnum; þar ræður miklu meir um verslunarþekking og viðskiftafróðleikur, samfara verklegri reynslu, víðsýni og hyggindum.

Hitt skal jeg játa, að jeg fellst á það að kippa gæslustjórunum burt, þegar bankalagabreytingin verður gerð, og jeg get tekið það fram, að mjer finst uppástunga ein, sem jeg sá hjer í einu blaði ekki alls fyrir löngu, um bankaráð í stað gæslustjóranna, vera mjög aðgengileg. En það skal jeg taka fram, að jeg vil ekki bankaráð, sem er ekki annað en tómt punt og ekkert gagn er að. Þótt þingið hafi hingað til verið svo heppið að hitta á góða menn fyrir gæslustjóra, þá verður ekki annað sagt en að það hafi stundum verið fremur tilviljun ein, því að það vita allir, að þingflokkarnir hafa haft þessar sýslanir fyrir pólitiska bitlinga handa sjálfum sjer, og það er engin vissa fyrir því, að þingið sje ætíð svo skipað, að sá flokkur, sem er í meiri hluta í hvert skifti, hafi hæfum manni á að skipa í þessar stöður. Og það verða allir að játa, að það er óheppilegt að hafa stjórn bankans þannig að leiksoppi milli hinna pólitisku flokka í landinu.

Jeg hefi tekið þetta fram til þess að sýna, af hverju jeg greiði atkvæði á móti frv.