13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2019 í B-deild Alþingistíðinda. (2035)

139. mál, útmælingar lóða

Bjarni Jónsson:

Mjer þykir mjög leitt að heyra, hvernig þeir tveir háttv. þingmenn, sem talað hafa, hafa tekið í þetta ágæta mál. En jeg vona hins vegar, að allsherjarnefnd geri það fyrir mín orð að vægja þessu frv. Svo er mál með vexti, að mig hefir lengi langað mikið til að ná mjer í lóðarblett hjer í bænum, á milli Safnahússins og bústaðar hæstv. forsætisráðherra, en ekki tekist hingað til. Er því ekki nema eðlilegt, að jeg grípi tækifærið, þegar það berst upp í hendur mjer með þessu fágæta frv., og telji þetta kost á því, en ekki löst, sem getur verið mjög handhægt fyrir menn að færa sjer í nyt, þegar þeim liggur á að fá sjer lóð, hvort sem er hjer í Reykjavík eða annarsstaðar. Jeg vona, að svo mæltu, að háttv. allsherjarnefnd fari ekki að níðast á mjer og taka frá mjer þennan hvalreka, sem mjer hefir hlotnast í fyrsta sinn á æfinni!