24.08.1917
Neðri deild: 42. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2028 í B-deild Alþingistíðinda. (2041)

139. mál, útmælingar lóða

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg verð að taka í sama strenginn og háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) í þessu máli. Að vísu skal jeg játa, að í breytingum nefndarinnar felast miklar umbætur frá því sem var. En jeg tel ekki heppilegt að hrapa að málinu. Það má vel vera, að það þurfi að grípa til eignarnáms síðar meir handa sjávarútvegnum.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) »citeraði« mikið gömlu lögin frá 1891. En honum ætti þó að vera vel kunnugt um það, að þá þótti mikið efamál, hvort þau gengju ekki of nálægt stjórnarskránni. Sú varð líka raunin á, að stjórnin setti reglur, sem takmörkuðu mikið þessa heimild, sem gefin var með lögunum. Sumum þótti að vísu, að hjer væri of langt farið, því að auðvitað hafði stjórnin ekki leyfi til að takmarka sjálf lögin.

Þegar þessi lög voru sett, stóð þannig á, eins og mönnum er kunnugt, að útlendir kaupmenn höfðu á sínu valdi allar stærstu og bestu lóðirnar hjer, svo að innlendir kaupmenn komust ekki að. Af þessari ástæðu voru lögin nauðsynleg þá. En nú er aftur á móti alt öðru máli að gegna, þar sem þessi nauðsyn er ekki lengur fyrir hendi.

Hvað sjávarútveg snertir, þá getur verið að það væri nauðsynlegt að láta mæla út lóðir fyrir útveg. En þá ætti ekki að gera það nema beinlínis eftir mati.

Jeg geri ráð fyrir, að í kaupstöðum sje byggingarnefnd. Og þá mundi það eflaust þykja hart aðgöngu með lóð, sem ætti að vera undir íbúðarhús, ef svo kæmi einhver útgerðarmaður og vildi taka hana undir útveg. En þó getur verið að nauðsynlegt sje slíkt ákvæði vegna útvegsins. En hins vegar hygg jeg að það þurfi að athuga betur í hverju einstöku tilfelli, hvort það miði til almenningsheilla, svo að það geti verið rjettmætt að taka lóðina eignarnámi, en mjer skilst, að eftir frv. eigi lögreglustjóri að eins að ákveða um stærð lóðarinnar, en ekki hvort þörf sje á að taka hana eignarnámi.

Þetta mál þarf að athuga vel og gaumgæfilega áður en gengið er frá því til fullnustu. Jeg mundi því heldur kjósa, að dagskrá háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) yrði samþykt, þótt þar sje má ske fullfreklega til orða tekið, heldur en frv., eins og það nú liggur fyrir.